Miklar lækkanir voru á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, líkt og á undanförnum vikum. Úrvalsvísitalan lækkaði um 2% í viðskiptum dagsins og hefur nú lækkað um 14% frá áramótum.

Flugfélagið Icelandair leiddi miklar lækkanir á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag, en 19 af 20 félögum á aðalmarkaði lækkuðu. Gengi bréfa Icelandair lækkaði um tæp 9% í viðskiptum dagsins. Gengið stendur nú í rúmum 1,6 krónum á hlut og hefur lækkað um 20% síðastliðinn mánuð.

Heildarvelta á aðalmarkaði nam 11 milljörðum króna. Mest velta var með bréf Arion banka, en viðskipti með bréfin námu 2 milljörðum króna og lækkaði gengi bréfa félagsins um 0,85%. Viðskipti með bréf Marel námu 1,8 milljörðum króna og lækkaði gengi bréfa félagsins um 1,7% fyrir vikið. Gengi bréfa Kviku banka lækkaði um 1,8% í 1,4 milljarða króna viðskiptum.

Gengi fjarskiptafélagsins Sýnar lækkaði um rúm 5% í 160 milljóna viðskiptum. Gengi félagsins stendur í 55 krónum á hlut og hefur lækkað um 12% síðastliðinn mánuð. Origo lækkaði um tæp 5% í 530 milljóna viðskiptum. Gengi bréfa Iceland Seafood lækkaði um tæp 4% í 900 milljón króna viðskiptum. Gengi félagsins hefur lækkað um rúm 18% síðastliðin mánuðinn.

Á First North markaðnum var einnig mikið um lækkanir. Flugfélagið Play lækkaði um rúm 7% í 300 milljón króna viðskiptum. Gengi Solid Clouds lækkaði einnig um 11,5% í 600 þúsund króna viðskiptum. Gengi bréfa Hampiðjunnar lækkaði um 2,65% í 2 milljóna viðskiptum. Kaldalón lækkaði einnig um 2,2% í 10 milljóna viðskiptum.

Breska hlutabréfavísitalan FTSE 100 lækkaði um 2,5% við opnun markaða en hefur tekið við sér og náð svipuðu gildi og í gær. Franska hlutabréfavísitalan CAC 40 lækkaði um tæp 5% við opnun markaða, en hún hefur einnig tekið við sér og náð svipuðu gildi og í gær.

Það sama á við um aðrar evrópskar hlutabréfavísitölur, þær lækkuðu nokkuð við opnun en hafa tekið við sér. Stoxx Europe 600 vísitalan lækkaði um rúm 3% við opnun markaða, en hefur tekið við sér og nemur lækkun dagsins 0,6% þegar þetta er skrifað.