Úrvalsvísitala aðalmarkaðar lækkaði um 1,92% í 2,8 milljarða króna viðskiptum dagsins. Stendur gengi úrvalsvísitölunnar nú í 2.412 stigum. Gengi 16 af 22 félögum á aðalmarkaði lækkaði í viðskiptum dagsins.
Gengi bréfa Icelandair lækkaði mest allra félaga, um tæp 5% í 470 milljóna veltu. Félagið birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða í gær og hagnaðist félagið um 7,7 milljarða á fjórðungnum. Þá lækkaði gengi Marel um tæp 4,4% í dag, í 530 milljón króna viðskiptum.
Gengi bréfa VÍS, sem birti uppgjör í gær, lækkaði um 2,3% í viðskiptum dagsins. Tryggingafélagið tapaði 70 milljónum á fjórðungnum.
Íslandsbanki lækkaði lítillega, en gengi bréfa félagsins stendur nú í 117,4 krónum. Þá stendur gengi Nova í 4,02 krónum á hlut eftir 0,5% lækkun dagsins.
Einungis þrjú félög hækkuðu á aðalmarkaði í dag. Það eru Brim um 1,2%, Eik um 0,8% og Síldarvinnslan um 0,4%.