Icelandair hefur gert samstarfssamning við breska flugfélagið easyJet þar sem Icelandair gerist aðili að stafrænni bókunarþjónustu easyJet, Worldwide by easyJet. Þar geta farþegar sjálfir bókað flug með easyJet og fjölmörgum samstarfsflugfélögum á sjálfvirkan og einfaldan hátt og þannig aukið möguleika á tengiflugi til fjölda áfangastaða um allan heim.
Gert er ráð fyrir að þjónustan verði virk á næstu vikum og þegar markaðsaðstæður leyfa. Þá munu farþegar geta bókað flug frá áfangastöðum easyJet í Evrópu og áfram inn í leiðakerfi Icelandair til fjölmargra áfangastaða bæði í Evrópu og Norður Ameríku í nánustu framtíð.
Icelandair á nú þegar í samstarfi við önnur flugfélög á borð við SAS, Finnair og airBaltic í Evrópu og Jetblue og Alaska Airlines í Bandaríkjunum. Worldwide by easyJet tengir saman yfir 5 þúsund flugleiðir víða um heim með öflugu neti 17 samstarfsflugfélaga. Sem leiðandi flugfélag í Evrópu, flutti easyJet 96,1 milljón farþega á árinu 2019.
Bogi Nils Bogason , forstjóri Icelandair:
„Það er ánægjulegt að taka upp samstarf við easyJet og fjölga þannig öflugum samstarfsaðilum Icelandair. Með þessari þjónustu koma viðskiptavinir easyJet til með að geta nýtt sér öflugar tengingar inn á áfangastaði okkar í Evrópu og Norður Ameríku á einfaldan hátt. Þessi samningur styrkir um leið leiðakerfi og tekjuflæði Icelandair og gefur okkur möguleika á að fjölga farþegum til Íslands og einnig í tengiflugi yfir hafið.“
Johan Lundgren , forstjóri easyJet:
„Við erum mjög ánægð með að Icelandair bætist í hóp samstarfsflugfélaga easyJet Worldwide. Tugir milljóna flugfarþega ferðast á ári hverju til og frá Evrópu og Icelandair er án efa kærkomin viðbót fyrir viðskiptavini okkar sem eru að leita að góðum og einföldum tengingum milli Evrópu og Norður Ameríku.“