Icelandair hlaut á mánudagskvöldið verðlaun fyrir besta upplifunarviðburðinn á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni The Travel Marketing Awards. Hátíðin fór fram á Hilton London Bankside Hótelinu.
Herferðin kallaðist „Iceland: Around The Corner“ en Icelandair stóð fyrir verðlaunaviðburðinum í London í október á síðasta ári og stóð hann yfir í fjóra daga.
„Það er okkur mikill heiður að fá þessi verðlaun. Fyrir okkur sanna verðlaunin gildi og árangur upplifunarmarkaðssetningar og hvernig hún skilar ósvikinni og ógleymanlegri upplifun,“ segir Gísli Brynjólfsson, markaðsstjóri Icelandair.
Gestir á hátíðinni voru meðal annars leiddir um tilbúin ísgöng og kynntust Bláa lóninu fullklæddir. Íslenskt tónlistar- og listafólk kom einnig fram og boðið var upp á séríslenskan mat og drykk.
Tilgangur viðburðarins var að kynna Ísland fyrir almenningi í London og auka og mynda tengsl við ferðaþjónustuaðila í Bretlandi en Bretlandsmarkaður er gríðarlega mikilvægur fyrir Icelandair og íslenska ferðaþjónustu, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.
Viðburðurinn var unninn í samvinnu við almannatengslafyrirtækið FleishmanHillard og framleiðslufyrirtækið Kit & Caboodle auk íslensku auglýsingastofunnar Hvíta hússins. En á meðal samstarfsaðila voru Bláa lónið, Íslandsstofa og 66°Norður.
Icelandair segist ætla að endurtaka upplifunina í Boston og Kaupmannahöfn á næstu mánuðum.