Um 37% stjórnenda iðnfyrirtækja segir að starfsfólk skorti í þeirra fyrirtækjum núna. Þetta hlutfall hefur farið lækkandi frá 2023 þegar 48% sögðu skort á starfsfólki vera viðvarandi. Árið 2024 sögðu 41% stjórnenda vöntun vera á starfsfólki.

Þetta kemur fram í könnun sem Outcome gerði fyrir Samtök Iðnaðarins í febrúar og mars. Í könnuninni voru stjórnendur iðnfyrirtækja spurðir nokkurra spurninga um þróun efnahagsmála, sem og rekstur eigin fyrirtækja og þá aðallega starfsmannamál og fjárfestingar.

Stjórnendur voru einnig beðnir um að svara hverskonar starfsfólk skortir helst og segja tæp 64% að það sé iðnmenntað starfsfólk. Það hlutfall hefur aldrei mælst hærra en á síðasta ári sögðu 60% stjórnenda að það skorti iðnmenntað starfsfólk. Um 20% nefna vöntun á háskólamenntuðu starfsfólki, það hlutfall hefur haldist nokkuð jafnt á milli ára undanfarin ár.

Þá segja 13% að það sé skortur á ófaglærðu starfsfólki. Þetta hlutfall hefur farið lækkandi síðustu ár, sem dæmi töldu tæplega 19% stjórnenda að það vantaði ófaglært starfsfólk árið 2020. Það ár töldu um 47% stjórnenda að það vantaði iðnmenntað starfsfólk 12,5% sögðu skort vera á háskólamenntuðu starfsfólki.

Auknar fjárfestingar

Stjórnendur iðnfyrirtækjanna voru spurðir að því hvernig þeir telji að fjárfestingar fyrirtækja þeirra í afkastagetu (húsnæði, vélum og tækjum) komi til með að þróast á næstu 12 mánuðum. Um 29% segja að þær aukist en 9% að þær minnki. Flestir stjórnenda, eða 58% þeirra, segja að þær standi í stað. Bendir þetta til vaxtar í fjárfestingum greinarinnar á næstu 12 mánuðum.

Stjórnendur voru spurðir að því hvaða þættir gætu helst dregið úr eða frestað fjárfestingum þeirra fyrirtækis í afkastagetu á næstu 12 mánuðum. Flestir, eða 30% stjórnenda, nefna háa vexti og verðbólgu. Um 20% stjórnenda nefnir lítinn vöxt í efnahagslífinu, sem mögulega hamlandi þátt. Alls 16% segja þungar álögur í formi opinberra skatta og gjalda geta dregið úr eða frestað fjárfestingum. Um 13% nefna skort á vinnuafli með rétta hæfni og menntun og um 11% segja flókið og langt leyfisveitingaferli framkvæmda geta haft neikvæð áhrif á fjárfestingu.

Stjórnendur voru spurðir að því hvaða þættir gætu helst dregið úr eða frestað fjárfestingum þeirra fyrirtækis í afkastagetu á næstu 12 mánuðum. Flestir, eða 30% stjórnenda, nefna háa vexti og verðbólgu. Um 20% stjórnenda nefnir lítinn vöxt í efnahagslífinu, sem mögulega hamlandi þátt. Alls 16% segja þungar álögur í formi opinberra skatta og gjalda geta dregið úr eða frestað fjárfestingum. Um 13% nefna skort á vinnuafli með rétta hæfni og menntun og um 11% segja flókið og langt leyfisveitingaferli framkvæmda geta haft neikvæð áhrif á fjárfestingu.

Nánar er fjallað um könnun SI í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.