Fyrsta mathöll Akureyrar kemur til með að líta dagsins ljós í maí á þessu ári en framkvæmdir á henni hófust fyrir tveimur vikum. Mathöllin fær nafnið Iðunn mathöll og verður staðsett í norðausturhluta Glerártorgs.
Kristján Ólafur Sigríðarson, rekstrarstjóri mathallarinnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að áformin hafi verið lengi í skoðun og að áhersla hafi verið lögð á góðan undirbúning og að finna rétta plássið.
Samkvæmt tilkynningu frá Glerártorgi er stefnt á að opna samtals sex veitingastaði í rýminu en hugsanlegir rekstraraðilar eru hvattir að setja sig í samband við Kristján.
„Við erum með opið fyrir umsóknir til 18. febrúar og munum taka ákvörðun eftir það. Við erum þó búin að negla niður nokkra staði en þetta mun skýrast betur síðar í mánuðinum.“
Kristján segir að það ríki mikil spenna á Akureyri þar sem mikil vöntun er á meiri veitingaflóru bæði á Akureyri og á Glerártorgi. „Fólk frá Austurlandi er líka að gera sér kaupstaðaferðir til Akureyrar og svo er túrisminn orðinn rosalega mikill og virðist vera að aukast.“