Stjórnvöld í Katar íhuga nú hvort leyfa skuli bjórsölu á leikvöngum á HM í fótbolta sem haldið verður þar í landi í nóvember og desember á þessu ári. Þetta kemur fram í frétt hjá Bloomberg.
Áfengi virðist vera mjög óaðgengilegt í Katar af trúarlegum og menningarlegum ástæðum. Strangar reglur gilda um áfengissölu og er hún bönnuð á öllum íþróttaviðburðum og á flestum veitingastöðum.
Stjórnvöld í Katar hafa nú þegar lofað því að áfengi verði í boði fyrir þá sem vilja á sérstökum stuðningsmannasvæðum víðs vegar um landið. Þau eru hins vegar undir mikilli pressu frá FIFA og bjórframleiðandanum Anheuser-Busch InBev NV, sem framleiðir meðal annars bjórana Budweiser, Corona og Stella Artois, að leyfa bjórsölu á leikvöngum á mótinu. Samkvæmt heimildum Bloomberg eru skipuleggjendur mótsins að íhuga að leyfa Bud Light eða aðra léttbjóra frá Budweiser á völlunum sjálfum.
FIFA og AB Inbev hafa verið í samstarfi frá árinu 1986. Þau hafa áður fengið brasilísk yfirvöld til að leyfa bjórsölu á leikvöngum á HM 2014.