Ikea er að fara af stað með markaðstorg þar sem neytendur geta keypt og selt notuð húsgögn og hefja þar með beina samkeppni við fyrirtæki á borð við Ebay, Craigslist og Gumtree, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Ikea er að fara af stað með markaðstorg þar sem neytendur geta keypt og selt notuð húsgögn og hefja þar með beina samkeppni við fyrirtæki á borð við Ebay, Craigslist og Gumtree, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Forstjóri Ingka, rekstraraðila flestra Ikea verslana á heimsvísu, segir að Ikea Preowned markaðstorgið verði prufukeyrt í Madríd og Osló út árið. Í kjölfarið er stefnt að því að opna markaðstorgið víða um heim.

Viðskiptavinum Ikea býðst þar að setja inn auglýsingu af vörunni sinni og láta mynd og söluverð fylgja. Gervigreindarhugbúnaður Ikea aðstoðar seljendur með þætti á borð við mælistærðir. Kaupendur þurfa síðan að sækja vörurnar beint af seljenda sem fær að velja um að fá peninga við söluna eða úttektarmiða í Ikea með 15% bónusi.

Í fyrstu verður frítt fyrir seljendur að birta auglýsingar en seinna meir gæti Ikea farið fram á „hógvært gjald“, segir Jesper Brodin, forstjóri Ingka.

Markaðstorgið er sagt hluti af umbreytingarferli Ikea síðustu ára úr því að vera einfaldlega smásölufyrirtæki í úthverfum þar neytendur kaupa og sækja húsgögn sem þeir byggja sjálfir í að bjóða einnig upp á öfluga netverslun, opna verslanir í miðborgum ásamt því að bjóða viðskiptavinum upp á aukið þjónustuframboð, þar á meðal við að setja húsgögnin upp.