IKEA hlaut í vikunni umhverfisverðlaun Terra 2023 fyrir framúrskarandi, markvissan og eftirtektarverðan árangur og ábyrga stefnu í umhverfismálum.

Þetta er í fjórða skipti sem Umhverfisverðlaun Terra eru veitt.

„Við hjá Terra upplifum einstaklega mikinn meðbyr hjá starfsfólki IKEA þegar kemur að flokkun og sjáum við fram á áframhaldandi frábært samstarf þegar kemur að því að hámarka þá vegferð að breyta úrgangi í auðlind,“ segir Valgerður Sigrúnar Vigfúsardóttir, forstöðumaður viðskiptadeildar hjá Terra.

Í rökstuðningi tilnefningarinnar kom meðal annars fram að IKEA hafi lagt mikið af mörkum við að auka umhverfisvitund landsmanna. IKEA leggi þá mikla áherslu á flokkun úrgangs en fyrirtækið hafi meðal annars verið með gáma fyrir jólatré og tekið á móti ónýtum jólaseríum.

IKEA tekur auk þess á móti harðplasti sem er sent til endurvinnslu hjá frumkvöðlafyrirtækinu Plastplan og hefur unnið með Terra frá upphafi framkvæmda við nýtt vöruhús í að finna bestu lausnina varðandi úrgangsmál og flokkun.