Áskorendabankinn indó var valinn fjártækni hetja ársins á Nordic Fintech ráðstefnunni í Kaupmannahöfn í vikunni (e. Nordic Fintech Hero). Þetta kemur fram í tilkynningu, en indó er nýr sparisjóður sem mun opna fyrir almenning í vetur.

Norræna fjártækni vikan (e. Nordic Fintech Week) er hald­in á ári hverju af CPH Fin­tech sem er einn sterk­asti ný­sköp­un­ar­klasi Norður­landa.

Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt en fimm norræn fyrirtæki voru í úrslitum í ár.  Dómnefndina skipuðu aðilar frá Nordic Fintech Magazine og Nordic Fintech week.

Tryggvi Björn Davíðsson, annar stofnandi indó:

“Við stofnuðum indó af því að við trúum því að bankar séu fyrir fólk og eigi að starfa í sátt við samfélagið. Það er mikil viðurkenning fyrir indó að hafa verið valin hetja ársins á einum stærsta fjártækni viðburði ársins og hvatning fyrir okkur til að halda áfram að byggja valdaminnsta banka í heimi með valdamestu viðskiptavinina.”