Indverska flugfélagið Vistara hélt í sína síðustu flugferð í dag eftir níu ára starfsemi. Flugfélagið var samstarfsverkefni milli Singapore Airlines og indverska fjárfestingasjóðsins Tata Sons.

Öll starfsemi flugfélagsins verður héðan í frá flutt yfir til Air India, þar með talið miðasala og þjónusta. Ferlið við að flytja farþega sem áttu bókaða miða með Vistara yfir til Air India hefur þá staðið yfir undanfarna mánuði.

Vistara hafði byggt sér upp tryggan hóp viðskiptavina en flugfélagið var þekkt fyrir að bjóða upp á hágæða mat, góða þjónustu og þægilegt farþegarými. Ákvörðunin um að hætta með starfsemi hefur því verið gagnrýnd af aðdáendum og sérfræðingum innan fluggeirans.

Þá hafa margir lýst yfir áhyggjum yfir því að samruninn muni hafa áhrif á þjónustu en bæði Air India og Vistara hafa tapað háum fjárhæðum undanfarið ár.