Hugbúnaðarfyrirtækið Init skilaði 79 milljóna króna hagnaði á síðasta ári og stóð afkoman nánast í stað milli ára. Tekjur námu 296 milljónum króna en voru 541 milljón árið áður.

Ástæða tekjusamdráttar er sú að lítil starfsemi var hjá félaginu síðari hluta ársins 2022 og í árslok var engin formleg starfsemi hjá því. Í skýrslu stjórnar í ársreikningi kemur fram að á hluthafafundi þann 19. desember sl. hafi verið ákveðið að slíta félaginu miðað við 31. desember 2022. Þetta sé því síðasti formlegi ársreikningur félagsins og það hafi verið tekið til slitameðferðar í byrjun árs 2023.

Sumarið 2021 var greint frá því að Init hafi brotið á samningum sínum um rekstur og þróun á lífeyris-, iðgjalda- og verðbréfakerfinu Jóakim fyrir Reiknistofu lífeyrissjóða (RL), samkvæmt úttekt endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young.

RL tilkynnti í byrjun júní sama ár um uppsögn á samningi sínum við Init, rúmum mánuði eftir umfjöllun Kveiks um Init sem snerist m.a. um arðgreiðslur og dótturfélög fyrirtækisins.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.