Hugbúnaðarfyrirtækið Init braut á samningum sínum um rekstur og þróun á lífeyris-, iðgjalda- og verðbréfakerfinu Jóakim fyrir Reiknistofu lífeyrissjóða (RL), samkvæmt úttekt endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young (EY). Þetta kemur fram í tilkynningu RL.
Fram kemur að af þessum brotum vegi þyngst viðskiptasamband Init ehf. við undirverktaka án heimildar RL, annars vegar við félag með sama eignarhald (Init rekstur ehf.) og hins vegar við nokkur félög í eigu stjórnenda Init. Þá segir EY að ekki verði séð að eðlilegur rekstrartilgangur hafi að öllu leyti legið að baki greiðslum milli umræddra félaga.
„Það vekur athygli að tekjur Init-rekstrar eru verulega umfram rekstrargjöld, allt frá því samningur var undirritaður í nóvember 2013 milli RL og Inits. Einnig að stærstur hluti arðgreiðslna hefur verið greiddur út úr Init-rekstri en ekki Init. Þá liggja ekki fyrir verðútreikningar eða aðrar áreiðanlegar forsendur að baki þóknunum sem Init-rekstur fékk greiddar frá Init. Þannig er erfitt að sjá rekstrarlegan tilgang fyrir hluta af tekjum Init-rekstrar, einnig í ljósi þess hversu háar þær hafa verið umfram rekstrargjöld,“ segir í úttekt EY.
Stjórn RL mun á næstu vikum fara ítarlega yfir þessar niðurstöður úttektarinnar og skoða hvort gripið verði til aðgerða á grunni þeirra.
EY bendir að auki á að gjaldskrá hafi verið ógegnsæ og að viðskipti Init við félög tengd eigendum þess hafi flækt reikningsskil félagsins og haft áhrif á birta afkomu þess. Ákvæði í samningi RL og Init um upplýsingagjöf um slík viðskipti hafi ekki verið nægjanlega yfirgripsmikil. Einnig kemur fram að samninga við hýsingaraðila kerfisins þurfi að endurskoða og skýra þurfi ákvæði um persónuvernd. „Það liggur ljóst fyrir að svigrúm til lækkunar gjaldskrár fyrir þjónustu Inits var vanmetið af hálfu RL.“
Nýr samningur komi ekki til greina
Reiknistofa lífeyrissjóðanna er eignarhaldsfélag sem heldur utan um eignarhald tíu lífeyrissjóða, þar á meðal Birtu og Gildi, á kerfinu Jóakim. RL tilkynnti í byrjun júní um uppsögn á samningi sínum við Init, rúmum mánuði eftir umfjöllun Kveiks um Init sem snerist m.a. um arðgreiðslur og dótturfélög fyrirtækisins. RL mun notast við Jóakim áfram næstu mánuði þar til ný útgáfa eða nýtt kerfi leysir það eldra af hólmi
„Ekki kemur til greina af hálfu stjórnar RL að gera nýjan samning um rekstur og þjónustu Jóakims á svipuðum grunni eða forsendum og sá samningur sem nú hefur verið sagt upp,“ segir í tilkynningunni sem RL sendi frá sér í dag.
Í úttektinni kemur ennfremur fram að eftirfylgni hafi skort af hálfu RL hvað varðar ýmis atriði síðustu árin. „Stjórn RL tekur slíkar ábendingar alvarlega og mun fara gaumgæfilega yfir ábendingar EY í þeim efnum og tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.“