Auðar, fjármálaþjónusta Kviku banka fyrir sparnaðarreikninga, opnaði fyrir mánuði síðan fyrirtækjareikninga sem bera 8% vexti, óháð innlánsupphæð, á óbundnum og óverðtryggðum sparnaðarreikningum.

Nú fjórum vikum eftir opnun hafa yfir 400 fyrirtæki stofnað nýja reikninga hjá Auði og er staða innlána komin yfir 2 milljarða króna á fyrirtækjareikningum.

„Þetta hefur farið mjög vel af stað og fjöldi viðskiptavina á fyrstu vikunum hefur farið fram úr okkar væntingum,“ segir Halldór Snæland, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs hjá Kviku.

„Við fengum strax í upphafi frábærar viðtökur frá fyrirtækjum bæði frá þeim sem þegar voru í viðskiptum við Kviku en ekki síður frá nýjum fyrirtækjum. Fjöldi nýrra fyrirtækja hefur bæst í viðskiptavinahóp okkar og opnaði reikninga strax á fyrstu dögum. Við fundum þannig fljótt að við vorum greinilega að svara eftirspurn sem var til staðar frá fyrirtækjum í landinu, ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Nú þegar mánuður er liðinn frá opnun hafa yfir 400 fyrirtæki opnað reikninga hjá Auði og staða innlána er orðin rúmir 2 milljarðar króna og fer hækkandi með hverjum degi.“

Viðskiptavinir Auðar meðal einstaklinga eru nú yfir 50.000 og staða innlána rauf 100 milljarða múrinn á fimm ára afmæli Auðar síðastliðið vor.

Auður veitir þjónustu einungis á netinu en með því er horft til þess að halda kostnaði í lágmarki. Fjármálaþjónustan segir það skapa svigrúm til að bjóða viðskiptavinum upp á betri innlánskjör.