Innnes ehf., ein stærsta matvöruheildverslun landsins, hefur fest kaup á fyrirtækinu Djúpalóni ehf sem sérhæfir sig í innflutningi, sölu og dreifingu á sjávarfangi til fyrirtækja og verslana. Seljendur eru Pétur Þorleifsson og Jóhanna Benediktsdóttir.

Í fréttatilkynningu segir að engar breytingar séu fyrirhugaðar á mannauði í kjölfar viðskiptanna. Kaupin eru gerð með fyrirvara á samþykki samkeppnisyfirvalda.

Innnes segir að með þessum kaupum styrkist heildverslunin umtalsvert í umsvifum á sjávarfangi sem sé sívaxandi vöruflokkur.

„Við höfum fundið aukna eftirspurn eftir fjölbreyttu fersku, kældu og frosnu sjávarfangi hjá okkar viðskiptavinum, bæði á fyrirtækja- og neytendamarkaði og því eru kaupin á Djúpalóni í takt við okkar markmið að þjónusta okkar viðskiptavini sem allra best. Djúplóni hefur gengið vel á sínum markaði, er með öflugt teymi og við sjáum mikil vaxtartækifæri framundan með þessum kaupum,” segir Magnús Óli Ólafsson forstjóri Innnes.

Velta Djúpalóns jókst um 24% á milli ára og nam 1,1 milljarði króna árið 2022. Félagið hagnaðist um 97 milljónir króna í fyrra samanborið við 69 milljónir árið 2021. Eignir Djúpalóns voru bókfærðar á 247 milljónir í árslok 2022 og eigið fé var um 143 milljónir.

Innnes er sem fyrr segir ein af stærstu matvöruheildverslunum landsins með fjölbreytt úrval matvöru og áfengis ásamt kaffiþjónustu. Fyrirtækið flutti nýverið alla starfsemi sína í nýtt hátæknivöruhús að Korngörðum 3.