Uppsöfnuð viðhaldsskuld í innviðakerfinu er metin á 680 milljarða króna í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga. Í sambærilegri skýrslu sem gefin var út fyrir fjórum árum mældist innviðaskuldin 420 milljarðar króna.
Mest er uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu eða á bilinu 265–290 milljarðar króna.
Í skýrslunni segir eru framtíðarhorfur metnar verstar fyrir vegakerfið, hafnir, vatnsveitur, flugvelli og lendingarstaði fyrir utan Keflavíkurflugvöll.
Í skýrslunni segir að íslenskt innviðakerfi hafi ekki fylgt eftir vexti hagkerfisins. Hægur vöxtur innviðakerfisins sé hamlandi fyrir framtíðarvaxtarmöguleika hagkerfisins og geti haft alvarleg áhrif á verðmætasköpun, lífsgæði og samkeppnishæfni landsins.
Samtökin segja að með réttu megi segja að viðhaldsskuldin sé form skuldasöfnunar af hálfu hins opinbera þar sem ríki og sveitarfélög eru að velta skuld yfir á komandi kynslóðir með því að fresta nauðsynlegu viðhaldi.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141292.width-1160.png)
Sigurður gagnrýnir þátt hins opinbera
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir að stór hluti innviða sé rekinn í félögum þar sem greitt er fyrir notkun og gjöld verða að standa undir viðhaldi og endurbótum. Félögin séu fjármögnuð með aðkomu einkaaðila í gegnum lánsfé og í einhverjum tilvikum hlutafé.
„Það er hins vegar staðreynd að stærstur hluti viðhaldsskuldar í innviðakerfinu er vegna vegakerfis og fasteigna í eigu hins opinbera en hvoru tveggja er rekið í gegnum A-hluta ríkissjóðs og sveitarfélaga. Þetta bendir til þess að það form henti síður til reksturs innviða þegar kemur að nauðsynlegu viðhaldi,“ segir Sigurður.
„Hvað vegakerfið varðar þá eru sannarlega innheimt gjöld frá notendum þess, sbr. kílómetragjald, olíugjald, bifreiðagjald o.fl., en þau renna ekki til reksturs þess eins og gengur og gerist í hefðbundnum rekstri. Þessu þarf að breyta. Markmið skýrslunnar er að kalla fram upplýsta umræðu og nauðsynlegar úrbætur.“
Endurstofnvirði innviða á Íslandi er áætlað um 6.700 milljarðar króna sem jafngildir 147% af vergri landsframleiðslu. Þetta er hærra hlutfall en í flestum öðrum löndum og endurspeglar mikilvægi innviða fyrir íslenskt samfélag.
Að meðaltali fá innviðir ástandseinkunnina 3, á skala frá 1 til 5, þar sem 1 er verst og 5 er best. Einkunnin 3 gefur til kynna að umtalsvert viðhald sé nauðsynlegt til að halda starfsemi innviða gangandi og að verulega fjárfestingu þurfi til að bæta ástand þeirra til lengri tíma.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141291.width-1160.png)