Ölgerðin og Kjarnavörur áætla að markaðshlutdeild Ísbúð Vesturbæjar sé um 20-25% á höfuðborgarsvæðinu. Einungis Huppuís er með stærri hlutdeild eða um 35-40%.

Þetta kemur fram í samrunatilkynningu vegna áformaðra kaupa Ölgerðarinnar á Kjarnavörum, sem á Íbúð Vesturbæjar. Samkeppniseftirlitið óskaði eftir umsögnum um viðskiptin í dag.

Í umræddri samrunatilkynningu er að finna eftirfarandi töflu yfir stærstu ísbúðir höfuðborgarsvæðisins.

Þær ísbúðir sem samantektin nær til veltu samtals um 2,5 milljarða króna samkvæmt síðasta birta ársreikningi hverrar ísbúðar. Áréttað er að fleiri ísbúðir eru starfandi á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað heildsölumarkað tengdum ísbúðarrekstri er bent á að heildsalan Danól, sem er í eigu Ölgerðarinnar, flytur inn og selur í heildsölu hráefni fyrir ísbúðir, þar á meðal sælgæti, rör og skammtabox. Auk þess selja Kjarnavörur ísblöndu.

Samrunaaðilarnir telja þó önnur fyrirtæki einnig vera sterk á þessum markaði. Vísað er m.a. í samruna Eignarhaldsfélagsins Kolku, móðurfélags 1912, og Huppuís frá árinu 2021 en með honum varð Huppuís hluti af samstæðu sem innihaldi félögin Nathan og Olsen, Ekruna og Emmessís.

Með 20-25% hlutdeild á sultumarkaðnum

Í samrunatilkynningunni er einnig að finna áætlaða markaðshlutdeild á markaðnum fyrir sultu og hlaup í dagvöruverslunum.

Áætluð hlutdeild ÓJ&K-ÍSAM heildsölunnar er langhæst en fyrirtækið selur sultu undir vörumerkjunum St.Dalfour og Mömmu. Samanlögð hlutdeild þessara tveggja vörumerkja er metin á bilinu 45-50%.

„Það athugast þó að Kjarnavörur framleiða Mömmu sultu fyrir ÓJ&K-ÍSAM og er þá hlutdeild ÓJ&KÍSAM án Mömmu um [30-35%],“ segir í skjalinu.

„Kjarnavörur hafa einnig framleitt sultu fyrir Samkaup (Sveitasulta) og Aðföng (Bónus sulta). Það kann að vera að hlutdeild félagsins að því leytinu sé undir „private label“ en að mati samrunaaðila er ljóst að jafnvel þó öll private label hlutdeild sé hjá samrunaaðilum yrði sameiginleg hlutdeild í mesta lagi ríflega [30-35%].“

Kjarnavörur selja sultu undir vörumerkinu Kjarna, en hlutdeild er talin nema um 5-10%. Danól selur sultu og marmelaði undir vörumerkinu Den Gamle en hlutdeild Danól er talin nema á bilinu 0-5%.

Sé hlutdeild vegna sölu á Mömmu sultu tekin með í reikninginn áætla samrunaaðilar að hlutdeild þeirra sé samanlögð á bilinu 25-30%. Samrunaaðilar telja hins vegar að hlutdeild undir vörumerkinu Mömmu eigi í reynd að vera hjá ÓJ&K-ÍSAM sem eigi vörumerkið og geti „hæglega“ leitað til framleiðenda erlendis til að sjá um alla framleiðslu í stað Kjarnavara.