Stjórnir Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. í Fjallabyggð hafa skrifað undir samning um samruna félaganna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem var send út í kvöld.
Sameinað félag mun heita Ísfélagið hf. Framkvæmdastjóri verður Stefán Friðriksson, núverandi framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja hf., með aðsetur í Vestmannaeyjum. Ólafur H. Marteinsson, núverandi framkvæmdastjóri Ramma hf., verður aðstoðarframkvæmdastjóri með aðsetur í Fjallabyggð.
Heildaraflahlutdeild sameinaðs félags verður tæplega 8% af úthlutuðu aflamarki en samanlögð velta félaganna var um 28 milljarðar króna á árinu 2021.
Stærstu hluthafar sameinaðs félags verða ÍV fjárfestingarfélag ehf., Marteinn Haraldsson ehf., Gunnar Sigvaldason, Svavar Berg Magnússon og munu eiga samtals 83% hlut.