Hlutabréf Iceland Seafood International (ISI) hafa lækkað um 6,5% í fyrstu viðskiptum frá opnun Kauphallarinnar í dag. Taka skal fram að velta með bréf félagsins nemur aðeins 9 milljónum króna það sem af er degi.

Gengi félagsins stendur nú í 7,1 krónu á hlut, sem er meira en helmingi lægra en í byrjun árs. Fari svo að hlutabréfaverð ISI verði óbreytt við lokun Kauphallarinnar verður þetta lægsta dagslokagengi félagsins frá skráningu þess á aðalmarkað í lok október 2019. Dagslokagengi Iceland Seafood fór lægst í 7,2 krónur í mars 2020, í upphafi kórónuveirufaraldursins.

Iceland Seafood sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun eftir lokun markaða á föstudaginn. Félagið færði afkomuspá sína fyrir árið niður úr 9,0-14,0 milljónum evra í 4,0-7,0 milljónir evra. ISI tók fram í tilkynningunni að horfur fyrir yfirstandandi fjórðung hafi versnað.

„Mótvindur hefur aukist í byrjun fjórða ársfjórðungs, sem er mikilvægt viðskiptatímabil fyrir Iceland Seafood. Það eru merki um að efnahagssamdráttur í Evrópu sé að hafa neikvæð áhrif á eftirspurn á lykilmörkuðum.“