Frá og með 8. nóvember nk. munu Íslendingar ekki lengur þurfa að sækja um vegabréfsáritun til að heimsækja Kína. Handhafar íslenskra vegabréfa geta dvalið, stundað viðskipti eða heimsótt vini og ættingja í Kína í allt að 15 daga án vegabréfsáritunar.
Þetta kom fram á blaðamannafundi kínverska utanríkisráðuneytisins fyrr í dag en kínversk stjórnvöld hafa stöðugt verið að bæta löndum við þennan lista undanfarin misseri.
„Til að auðvelda ferðalög yfir landamæri enn frekar hefur Kína ákveðið að bæta fleiri löndum við lista þjóða sem þurfa ekki vegabréfsáritun. Venjulegir vegabréfshafar frá Slóvakíu, Noregi, Finnlandi, Danmörku, Íslandi, Andorru, Mónakó, Liechtenstein og Suður-Kóreu munu ekki þurfa vegabréfsáritun frá 8. nóvember nk. til 31. desember 2025.“
Kínversk stjórnvöld veittu Íslendingum í sumar þessa heimild en þá aðeins til að ferðast til kínversku eyjunnar Hainan í suður Kína. Þeir Íslendingar sem fara þangað geta aftur á móti dvalið þar í 30 daga.
He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, hefur undanfarið talað um þann möguleika að flýta fyrir beinum flugferðum milli Íslands og Kína. Hann hefur sagt að flugfélög á borð við Juneyao og Air China séu nú þegar farin að skoða þann möguleika.