Icelandair gekk í dag frá starfslokum við 82 starfsmenn innan félagsins en um var að ræða starfsmenn þvert á svið bæði innanlands og í Evrópu. Uppsagnirnar ná ekki til áhafna og hafa ekki áhrif á leiðarkerfi félagsins, að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair.

Bogi bendir á að þau hafi sagt í nokkurn tíma að endurreisnin eftir Covid-faraldurinn hafi tekið mikinn fókus, þar sem þúsundir manna voru ráðnir auk þess sem eldri vélar voru teknar aftur í notkun og nýjar teknar inn í flotann.

„Nú er vöxturinn hægari og við höfum ráðrúm til að horfa meira til skilvirkni og hagræðingar og þar liggja okkar áherslur núna. Við erum að setja meiri fókus á að auka skilvirkni og framleiðni í rekstrinum og þetta er þáttur í því, því miður, að kveðja góða félaga til lengri tíma,“ segir Bogi.

Viðskiptablaðið hafði heyrt af því að mögulega kæmi til uppsagna í hópi flugmanna eftir sumarið en aðspurður um hvort eitthvað sé til í þeim málum segir Bogi að frekari uppsagnir liggi ekki fyrir á þessu stigi.

Ísland að tapa

Samhliða tilkynningu um uppsagnirnar kom fram í tilkynningu til Kauphallarinnar nú síðdegis að afkomuspá fyrir árið 2024, sem Icelandair gaf út í byrjun apríl og gerði ráð fyrir að EBIT hlutfall af tekjum myndi vera á bilinu 2-4%, hafi verið tekin úr gildi vegna óvissu í ytra umhverfi.

Óvissa í ytra umhverfi hefur haft áhrif á tekjumyndun og eftirspurn eftir ferðum til Íslands hefur verið veikari en félagið hafði áður gert ráð fyrir, sem megi ekki síst rekja til jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesi.

„Þegar eftirspurn eftir flugferðum til Íslands hefur minnkað hefur Icelandair nýtt sveigjanleika leiðakerfisins og lagt meiri áherslu á markaðinn yfir hafið, en þar hafa fargjöld gefið nokkuð eftir.“

Þá hefur Ísland reynst dýrari áfangastaður heilt yfir fyrir ferðamenn.

„Ísland er aðeins að tapa í samkeppninni á móti Noregi og Finnlandi, til dæmis, og það hefur verið þróunin síðustu mánuði. Kostnaður ferðamannsins eftir að hann kemur til landsins hefur verið það hár að Ísland hefur verið að dragast aftur úr,” segir Bogi en hann vísar til þess að fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á landi hafi verið að glíma við mun meiri launahækkanir en samkeppnislöndin.

„Við þurfum að snúa þessari þróun við til að efla samkeppnishæfni Íslands.“

Hvað félagið sjálft varðar segir Bogi að það standi vel, fjárhagsstaða þess sé sterk, og til lengri tíma séu þau bjartsýn á ferðamannahorfur.

Láta hlutabréfaverð ekki stýra aðgerðum

Fyrstu fregnir af uppsögnunum bárust í morgun en hlutabréfaverð Icelandair lækkaði um 3,37% í tæplega 200 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag og stóð gengið í 1,01 krónu við lokun markaða. Til samanburðar var útboðsgengið 1,00 króna í tugmilljarða hlutafjárútboði Icelandair í september 2020, í miðjum Covid-heimsfaraldrinum‏.

Hlutabréfaverð félagsins nú hefur lækkað um fjórðung það sem af er ári og um meira en helming síðan í júlí 2023. Aðspurður um hvort sú staða hafi spilað hlutverk í aðgerðum dagsins segir Bogi svo ekki vera.

„Við erum ekki að láta hlutabréfaverðið stýra aðgerðum, okkar hlutverk er bara að reka fyrirtæki og láta verkin tala og hlutabréfaverðið til lengri tíma mun endurspegla það.“