Evrópskir hlutabréfamarkaðir opnuðu rauðir í morgun en þeir áttu sinn besta dag í gær frá mars 2020. Fjárfestar bíða nú eftir ákvörðun Seðlabanka Evrópu (ECB) um hvort viðhalda eigi aðhaldslítilli peningamálastefnu til að styðja við hagkerfi Evrópu á tímum stríðsástandsins í Úkraínu, að því er Financial Times greinir frá.
Stoxx Europe 600 vísitalan hefur lækkað um meira en hálft prósent í morgun en vísitalan hækkaði um 4,7% í gær. Íslenski markaðurinn hefur hins vegar ekki fylgt þróun annars staðar í Evrópu í morgun en Úrvalsvísitalan hækkaði um meira en 1% í fyrstu viðskiptum dagsins. Icelandair og Arion banki hafa bæði hækkað um tæplega 3% í fyrstu viðskiptum dagsins.
Von er á tilkynningu frá peningastefnunefnd Seðlabanka Evrópu síðar í dag. Einnig munu leiðtogar Evrópusambandsins hittast til að ræða viðbrögð við hækkandi raforkuverði í kjölfar viðskiptaþvingana á Rússa.
Þá lækkaði verð á Brent hráolíu um 13% í gær eftir að meðlimaríki OPEC gáfu til kynna að þau myndu auka framleiðslu til að draga úr verðhækkunum. Munaði þar mest um að fulltrúar Sameinuðu furstadæmanna (UAE) sögðust vera hlynntir aukinni framleiðslu. Orkumálaráðherra UAE kvað þó niður vonir margra en hann sagði að sambandsríkin myndu áfram fylgja samkomulagi OPEC um mánaðarlega framleiðslu. Olíuverð hefur hækkað um meira en 3% í dag.