Samkvæmt nýrri skýrslu Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA) eru sektarfjárhæðir og sektir á Íslandi í algjörum sérflokki í samanburði við önnur Evrópulönd.

Í skýrslunni er finna upp­lýsingar um sektir á málefnasviði ESMa, þar með talið brota á MiFID II og MiFIR reglu­gerðunum sem voru inn­leiddar í lög hér­lendis með lögum um markaði fyrir fjár­mála­gerninga í septem­ber 2021.

MiFID er sam­heiti yfir evrópskt reglu­verk um markaði fyrir fjár­mála­gerninga á meðan MiFIR reglu­gerðin felur í sér víðtækar kröfur um gagnsæi fyrir og eftir við­skipti.

Árið 2023 voru gefnar út 289 stjórnsýslu­sektir í Evrópu vegna brota á reglu­gerðunum tveimur og voru flestar sektir í Dan­mörku (42), síðan á Kýpur (38) og síðan Búlgaríu (30).

Á Ís­landi voru sektirnar ekki nema fimm en engu að síður borguðu ís­lensk fyrir­tæki mun hærri sektar­fjár­hæðir.

Heildar­sektar­fjár­hæðin hjá öllum aðildarríkjum var 18,2 milljónir evra eða rúmir 2,7 milljarðar ís­lenskra króna á gengi dagsins vegna brota tengdum reglugerðunum tveimur.

Þegar sektarfjárhæðir í skýrslunni eru skoðaðar í heild á málefnasviði ESMA er Ísland í öðru sæti með yfir 10% af heildarsektarfjárhæð á evrópska efnahagssvæðinu.

Til samanburðar er íbúafjöldi á Íslandi er innan við 0,1% af íbúafjölda efnahagssvæðisins.

Í skýrslunni er tekið sér­stak­lega fram að langstærsta ein­staka stjórnsýslu­sektin, tengt MiFID eða MiFIR var á Ís­landi, að upp­hæð 7,76 milljónir evra fyrir brot á hags­munaá­rekstrar­reglum, al­mennum reglum um vernd fjár­festa og upp­lýsinga­gjöf til við­skipta­vina.

Samsvarar það um 1,15 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.

Sjá má hér að neðan heildar­upp­hæðir á sektum og síðan fjöldi sekta úr skýrslu ESMA, tengt MiFID eða MiFIR .

Sektarfjárhæðir. Hér er um hreinar upphæðir að ræða og er ekki tekið tillit til höfðatölu.
Fjöldi stjórnsýslusekta vegna brota á MiFID og MiFIR árið 2023.