Íslandsbanki tilkynnti í morgun um vaxtabreytingar, örfáum mínútum eftir að ákvörðun Seðlabankans um að lækka stýrivexti um 0,5 prósentur var kynnt. Vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum lækka en vextir á verðtryggðum húsnæðislánum bankans hækka.

„Breytingar verða á vöxtum inn- og útlána Íslandsbanka 2. desember næstkomandi og taka að mestu mið af lækkun stýrivaxta Seðlabankans þann 20. nóvember,“ segir í tilkynningu Íslandsbanka.

Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána Íslandsbanka lækka um 0,50 prósentustig og verða 10,25%.

Fastir vextir til fimm ára óverðtryggðra húsnæðislána lækka um 0,40 prósentustig. Þá lækka fastir vextir til þriggja ára óverðtryggðra húsnæðislána um 0,10 prósentustig.

Fastir vextir á verðtryggðum húsnæðislánum hækka um 0,20 prósentustig. Breytilegir vextir á verðtryggðum húsnæðislánum hækka um 0,30 prósentustig.

Vextir á yfirdráttarlánum bankans lækka um 0,50 prósentustig. Óverðtryggðir kjörvextir lækka um 0,5 prósentustig. Verðtryggðir kjörvextir hækka um 0,30 prósentustig. Óverðtryggðir kjörvextir Ergo, vextir bílalána og bílasamninga lækka um 0,50 prósentustig

Vextir á óverðtryggðum sparnaðarreikningum Íslandsbanka lækka um 0,50-0,60 prósentustig. Vextir á verðtryggðum innlánum hækka um allt að 0,30 prósentustig.