Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,7% í 3,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Sextán af 22 félögum aðalmarkaðarins voru græn í viðskiptum dagsins en Iceland Seafood var eina félagið á aðalmarkaðnum sem lækkaði.

Íslandsbanki leiddi hækkanir en gengi bankans hækkaði um 2,7% í 450 milljóna veltu og stendur nú í 121,4 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Arion banki hækkaði einnig um 2,3% í 840 milljóna veltu og stendur nú í 153,5 krónum á hlut. Arion birtir uppgjör eftir lokun markaða á morgun og Íslandsbanki birtir uppgjör þriðja fjórðungs á fimmtudaginn.

Icelandair hækkaði um 2,1% í 250 milljóna viðskiptum. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,86 krónum. Tryggingafélögin í Kauphöllinni hækkuðu einnig í dag. Sjóvá hækkaði næst mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,5% í 240 milljóna veltu. VÍS hækkaði um 1,8% í tólf milljóna veltu.

Hækkanir vestanhafs

Sjá mátti talsverðan mun á Kauphöllinni eftir að bandaríski hlutabréfamarkaðurinn opnaði. Helstu hlutabréfavísitölur bandaríska markaðarins hafa hækkað um 0,8%-1,6% í dag. Fjárfestar vestanhafs rýna nú í uppgjör stærstu félaganna.

Coca Cola birti uppgjör í dag en sala drykkjarvörurisans jókst um 10% á milli ára og nam 11,1 milljarði dala á þriðja fjórðungi. Þá hafa hlutabréf General Motors hækkað um meira en 3% í dag en hagnaður bílaframleiðandans jókst um 37% á milli ára og nam 3,3 milljörðum dala, talsvert yfir væntingum greiningaraðila.

Netrisarnir Microsoft og Alphabet, móðurfélag Google, birta uppgjör eftir lokun markaða í dag.