Sjóðastýringafyrirtækið Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, hagnaðist um 640 milljónir króna árið 2022, samanborið við einn milljarð króna árið 2021. Stjórn Íslandssjóða leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 640 milljónum króna, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.
Rekstrartekjur Íslandssjóða drógust saman um 17% á milli ára og námu 2,1 milljarði í fyrra. Munurinn skýrist að stærstum hluta af gangvirðisbreytingu verðbréfa. Rekstrargjöld jukust um 3,5% og námu 1,3 milljörðum.
Á árinu 2022 störfuðu að meðaltali 20 starfsmenn hjá Íslandssjóðum auk stjórnarmanna og aðila sem sitja í ráðum sjóða í stýringu Íslandssjóða. Heildarlaunakostnaður félagsins nam 562 milljónum króna í fyrra.
Eignir Íslandssjóða voru bókfærðar á 2,5 milljarða króna í árslok 2022 og eigið var um 2,1 milljarður.
Afkoma sjóðanna neikvæð um 7,7 milljarða
Eignir í stýringu Íslandssjóða í árslok 2022 námu 388 milljörðum króna. Í lok ársins voru 22 sjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 206,7 milljörðum króna. Þar af eru 8 verðbréfasjóðir með hreina eign að fjárhæð 70,1 milljarða króna og 14 sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta með hreina eign að fjárhæð 136,6 milljarða króna.
Afkoma sjóðanna var neikvæð á árinu sem nemur 7,7 milljörðum króna. Um þrettán þúsund fjárfestar eiga hlutdeildarskírteini í sjóðum Íslandssjóða.
„Eignastýringarmarkaðurinn einkenndist nokkuð af erfiðum aðstæðum á fjármálamörkuðum á árinu sem kom niður á ávöxtun og afkomu af verðbréfaeignum,“ segir í afkomutilkynningu.
Hjá Íslandssjóðum starfa 22 sérfræðingar sem nýta aðferðir ábyrgra fjárfestinga í allri eigna- og sjóðastýringu.
„Nú er að baki ár sem einkenndist af sveiflum og krefjandi aðstæðum á innlendum og alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem rekja má meðal annars til stríðsátaka, vaxtahækkana, verðbólgu og afleiðinga Covid-19. Þá skiptir máli að sparifjáreigendur hugi vel að áhættudreifingu og langtímahugsun í fjárfestingum sínum. Í kjölfar krefjandi tímabila renna oft upp oft tímar góðrar ávöxtunar og þá er mikilvægt að missa ekki sjónar af þeim tækifærum sem skapast á markaði,“ segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.