Íslandssjóðir og Orkuklasinn hafa gert með sér samkomulag um samstarf og ráðgjöf vegna sérhæfðs sjóðs á sviði endurnýjanlegrar orku.
Orkuklasinn samanstendur af 50 fyrirtækjum og er samstarfsvettvangur íslenskra orkufyrirtækja og stofnana í allri virðiskeðju íslenska orkugeirans og hefur starfað frá árinu 2013. Íslandssjóðir er meðal elstu og stærstu sjóðastýringarfyrirtækja landsins með um 350 milljarða króna í stýringu.
Í tilkynningu segir að Orkuklasinn hafi leitað til stærstu sjóðafyrirtækja hér á landi um samstarf á þessu sviði og niðurstaðan var sú að ganga til samstarfs við Íslandssjóði sem munu sjá um rekstur sjóðsins.
„Það er afar spennandi verkefni fyrir okkur hjá Íslandssjóðum að setja á laggirnar sérhæfðan sjóð sem fjárfestir í íslenskum orkugeira. Spennandi tækifæri eru víða í greininni og þörfin á aukinni endurnýjanlegri orku blasir við. Þá eru einnig veruleg sóknarfæri í afleiddri þjónustu, betri nýtingu, útflutningi hugvits og tækniframförum,“ segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.
Markmið Orkuklasans með samstarfinu er að auka fjárfestingar í orku-, umhverfis-, og loftslagsmálum og tengdum greinum til að styrkja samkeppnishæfni íslenskra orkufyrirtækja og styðja við orkuskipti hér á landi og þar með umhverfis- og loftslagsmál almennt.
„Orkuklasinn er þverfaglegur samstarfsvettvangur fyrirtækja og stofnana sem starfa við alla þætti íslenska orkugeirans. Meginmarkmið Orkuklasans er að stuðla að aukinni samkeppnishæfni greinarinnar og um leið íslensks samfélags, samhliða því að vekja athygli á því sem aðildarfélagar klasans hafa upp á að bjóða,“ segir Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuklasans.
Sjóðurinn mun meðal annars fjárfesta í framleiðslu og dreifingu endurnýjanlegrar orku, innviðum, verkefnum tengdum orkuskiptum, bættri orkunýtingu, loftslagstengdri tækni, útflutningi hugvits og nýsköpun. Sérstök áhersla verður lögð á að taka þátt í vexti nýsköpunarfyrirtækja.