Samkvæmt gögnum Meniga var H&M vinsælasta fataverslunin meðal Íslendinga á árinu sem er að líða. Íslendingar keyptu föt hjá H&M fyrir 40% hærri upphæð heldur en hjá Lindex á árinu sem er að líða samkvæmt tölum Meniga.
Þetta er einkar áhugavert í ljósi þess að H&M er ekki með eina einustu verslun á Íslandi. Lindex er hins vegar með þrjár verslanir. Viðskiptablaðið greindi í sumar frá rannsókn Meniga sem benti til þess að Lindex væri orðin vinsælli en H&M meðal Íslendinga. Sú rannsókn byggði hins vegar á stærð viðskiptavinahópar frekar en veltu.
Meðalupphæðin sem Íslendingar eyddu í hverri verslunarferð í H&M á árinu var 13.571 króna samkvæmt tölum Meniga . Þetta er meira en tvöföld sú upphæð sem notendur Meniga eyddu að jafnaði í Lindex, en þar var meðalupphæðin 6.104 krónur. Hins vegar fóru íslenskir notendur Meniga í fleiri verslunarferðir í Lindex heldur en H&M á árinu 2015.