Íslendingar hafa veðjað tugum milljóna króna á alþingiskosningarnar sem haldnar verða 30. nóvember næstkomandi, samkvæmt talsmönnum veðbankanna Coolbet og Epicbet.
Stuðlar á kosningarnar voru opnaðir 15. október hjá veðbönkunum tveimur. Þar er hægt að veðja um allt mögulegt er varðar kosningarnar, um atkvæðaprósentu og fjölda þingmanna flokkanna, næsta forsætisráðherra og hvort tiltekinn einstaklingur komist inn á þing, svo eitthvað sé nefnt.
„Við héldum að við hefðum náð hápunkti í sumar, þegar við vorum eina veðmálasíðan til að bjóða upp á fjölbreytt úrval veðmála á forsetakosningarnar, en þar fengum við inn yfir fimm hundruð nýja notendur og var samtals veðjað fyrir 21,5 milljónir króna,“ segir talsmaður Coolbet á Íslandi.
Hann segir ljóst að alþingiskosningarnar verði stærstu kosningar hjá Coolbet frá upphafi. Nú þegar hafi fleiri notendur Coolbet veðjað á kosningarnar en veðjuðu á forsetakosningarnar í sumar. Mun meiri áhugi sé á komandi kosningum, hjá báðum kynjum.
„Með þetta í huga áttuðum við okkur fljótt á því hvaða tækifæri gætu falist í komandi alþingiskosningum. Umfang veðmála hefur verið ótrúlegt og sýnir greinilega mikinn áhuga Íslendinga á kosningunum.
Veðmálin hófust með krafti og hafa haldið stöðugum gangi, og mikill fjöldi veðmála hefur bæst við á hverjum einasta degi. Án þess að gefa upp of nákvæmar upplýsingar þá getum við sagt að þetta verði stærstu kosningar hjá Coolbet frá upphafi.“
15 milljónum veðjað hjá Epicbet
Heilt yfir hefur 15,1 milljón króna verið veðjað á alþingiskosningarnar á Epicbet, þar af 9,5 milljónum á einstaka flokka, 3,4 milljónum á hvort viðkomandi komist inn á þing og 2,2 milljónum á næsta forsætisráðherra. Þetta segir Daði Laxdal Gautason hjá Epicbet.
Rétt rúmlega fimm hundruð notendur hafa veðjað á kosningarnar í gegnum veðbankann, frá þremur löndum. Langflestir þeirra koma frá Íslandi en einhverjir frá Noregi og Finnlandi.
Spurður út í vinsælustu veðmálin segir Daði vinsælast að veðja á hvort flokkur nái eða nái ekki ákveðnu fylgi. Einnig sé vinsælt að veðja á hvort viðkomandi einstaklingur komist inn á þing eða ekki, en Epicbet er með stuðla á yfir sjötíu manns í þeim flokki.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.