Kvika Securities, dótturfélag Kviku banka í London, hefur farið fyrir hópi íslenskra fjárfesta sem eignaðist árið 2018 um 70% hlut í breska fyrirtækinu Cornerstone Healthcare sem rekur hjúkrunarheimili með sérhæfða þjónustu fyrir fólk með miklar sérþarfir tengdar heilahrörnunarsjúkdómum.

Kaupin voru leidd af stjórnendateymi sem hafði náð eftirtektarverðum árangri í rekstri hjúkrunarheimila á þessu sviði. Hugmyndin var að finna og taka yfir rekstur heimila með góða þjónustu, ná fram rekstrarhagræði og auka svo framboð félagsins með kaupum eða byggingu á nýjum heimilum.

Stjórnendateymið fékk í lið með sér fjárfestingarfélagið Ignite Growth, náinn samstarfsaðila Kviku í Bretlandi, og í kjölfarið bauðst íslenskum fjárfestum að taka þátt í verkefninu.

„Þetta er það sem starfsemi Kviku í Bretlandi snýst að stórum hluta um - að leita að spennandi fjárfestingarkostum sem viðskiptavinir bankans á Íslandi ættu annars erfitt með að fjárfesta í. Þetta eru m.a. eignaflokkar með öðruvísi áhættu en viðskiptavinum Kviku banka býðst vanalega,“ segir Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku Securities.

Byggja tvö ný hjúkrunarheimili

Við kaupin árið 2018 rak Cornerstone tvö hjúkrunarheimili í Portsmouth og Southampton á Suður-Englandi og árið 2021 opnaði fyrirtækið sitt þriðja hjúkrunarheimili suðvestur við London.

Auk þess er fyrirtækið um þessar mundir að byggja upp tvö ný hjúkrunarheimili í Bristol og Wincanton sem verða tekin í notkun á næsta ári. Með þeirri viðbót verður Cornerstone stærsti rekstraraðili landsins í þessari sérhæfðu þjónustu.

Nýja hjúkrunarheimili Cornerstone Healthcare í Wincanton sem verður tekið í notkun á næsta ári.

Viðskiptaáætlun eigendahópsins var að stækka rekstur félagsins upp í fimm heimili á líftíma fjárfestingarinnar að sögn Gunnars og því er horft til þess að hefja söluferli á félaginu áður en langt um líður.

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um fjárfestingu í hjúkrunarheimilum í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn. Þar er einnig rætt við framkvæmdastjóra rekstrar hjá Cornerstone Healthcare.