Hagnaður Íslenskrar fjárfestingar ehf. á árinu 2024 nam 133 milljónum króna, samanborið við 499 milljóna króna hagnað árið áður.
„Niðurstaðan var undir væntingum stjórnenda, en skýrist helst af því að verulegar tekjur sem tilheyra árinu fluttust yfir á árið 2025, auk þess sem nokkur félög innan samstæðunnar stóðu í umfangsmiklum umbreytingarverkefnum sem voru að mestu leyti gjaldfærð,“ segir í tilkynningu félagsins.
Íslensk fjárfesting starfar á fjórum megin sviðum: ferðaþjónustu, fasteignum, heilbrigðisþjónustu og útivist og hreyfingu. Í ljósi þeirra verkefna sem standa nú yfir á sviðunum fjórum búast stjórnendur félagsins við góðu rekstrarári á árinu 2025
Kilroy, alþjóðleg ferðaskrifstofa í eigu félagsins, skilaði 439 milljónum í hagnað og velti 29,4 milljörðum. Flóra hotels fjárfesti á árinu í uppbyggingu og hefur nánast tvöfaldað rekstrartekjur sínar og mun reka 313 herbergi um mitt ár 2025.
Stafir fasteignafélag var með eignasafn að verðmæti 10,9 milljarða og hagnaður Íslenskra fasteigna var 42,4 milljónir króna á árinu.
Heilbrigðissviðið skilaði 118 milljónum í hagnað. Fjárfestingafélagið segir að vegferð Útilífs haldi áfram eftir umtalsverðar breytingar síðustu ár og verða þær áherslubreytingar lykilverkefni Útilífs á árinu.
Íslensk fjárfesting er fjárfestingafélag í jafnri eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar. Innan samstæðu félagsins starfa yfir 1.000 manns. Hjá móðurfélaginu starfa sérfræðingar sem sinna fjárfestingastýringu, verkefnaþróun, fjármálum, mannauðsmálum, lögfræði og framkvæmdum.
Heildareignir móðurfélagsins námu 6.240 milljónum króna í lok árs 2024, en eignir samstæðunnar voru rúmlega 24,2 milljarðar króna. Eigið fé móðurfélagsins nam 4.688 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 75% við árslok.
