Íslensk skip hafa ítrekað fengið töluvert lægra verð fyrir makríl sem boðinn er til sölu í Noregi, samkvæmt gögnum frá norska sölusambandinu Sildesalgslaget. Á sama tíma leggur ríkisstjórnin til að útreikningur á veiðigjaldi taki mið af meðalverði sem fæst fyrir makríl á norska markaðnum – sem gefur sjaldan raunsanna mynd af afkomu íslensku skipanna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarvegi um frumvarp til breytingu á veiðigjöldum sem er nú til umfjöllunar í atvinnuveganefnd eftir fyrstu umræðu á Alþingi. Tugir umsagna bárust nefndinni í gær, mánudag.

Skattheimta meiri en útflutningsverðmæti

Samkvæmt nýjustu gögnum frá Sildesalgslaget hefur makrílafli íslenskra skipa ítrekað verið seldur með verulegri verðlækkun vegna gæðakrafna. Á meðan norsk skip fengu að meðaltali 22 krónur á kíló fyrir makríl til manneldis í ágúst 2024, fékk íslenskt skip sem landaði í Noregi aðeins 8,75 krónur á kíló fyrir hluta aflans – og þurfti að selja megninu sem hráefni í fiskimjöl og -olíu fyrir enn lægra verð.

Ástæðan fyrir að þetta skiptir máli er samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar mun útreikningur veiðigjalda á uppsjávarfisk á borð við makríl miðast við markaðsverð í Noregi. Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar hefur bent á að öllu óbreyttu mun þetta þýða að skattheimta af makrílveiðum verður meiri en útflutningsverðmæti þeirra.

Gæðin draga úr virði aflans

Verðmunurinn stafar einkum af meðhöndlun aflans og tímasetningu veiðanna. Norsk skip hafa aðstöðu og hefðir fyrir að landa makríl innan sólarhrings frá veiðum, á meðan íslensk skip eru oft á lengri túrum með minna kælikerfi. Afleiðingin er sú að ís­lenskur makríll stenst ekki kröfur fyrir hágæða manneldisvöru á Asíumörkuðum og endar í auknum mæli í lægri verðflokki.

Fram kemur í gögnum frá Noregi að allt að 44% af makrílveiðum íslenskra skipa árið 2023 hafi farið í framleiðslu á fiskimjöli eða lýsi, á meðan sambærilegt hlutfall hjá norskum skipum er innan við eitt prósent. Þá kemur fram að íslensk skip séu í auknum mæli að framleiða slægðan makríl án höfuðs – vöru sem norska greinin framleiðir ekki, enda merki um lakari gæði.