Úrvalsvísitalan lækkaði um 3,3% í 8,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Lækkanir á íslenska markaðnum er í takti við þróun á stærstu hlutabréfamörkuðum heims en markaðir í Asíu voru eldrauðir í nótt, töluverðar lækkanir voru í Evrópu og S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 1,5%.
Úrvalsvísitalan stóð í 2.348,02 stigum við lokun Kauphallarinnar. Hún hefur nú alls lækkað um 22,2% frá því að hún fór hæst upp í 3.019,62 stig þann 11. febrúar síðastliðinn.
Er því um að ræða bjarnamarkað (e. bear market) á íslenska markaðnum en hann er skilgreindur sem meira en 20% lækkun frá síðasta hágildi.
Vaxtarfyrirtækin á markaðnum - Amaroq Minerals, Alvotech og Oculis – lækkuðu um tíu prósent við opnun Kauphallarinnar í morgun en gengi félaganna rétti aðeins úr kútnum eftir því sem leið á daginn.
Hlutabréfaverð Amaroq Minerals lækkaði um 4% í tæplega hálfs milljarðs króna veltu og stendur nú í 119 krónum á hlut. Gengi Amaroq hefur nú lækkað um 43% frá því að hafa hæst farið upp í 209 krónur á hlut um miðjan janúar. Hlutabréf félagsins voru síðast lægri í september sl.
Gengi JBT Marels féll um 6,4% í 700 milljóna veltu og stendur nú í 13.200 krónum á hlut. Hlutabréf félagsins hafa nú fallið um 26,7% í ár og ekki verið lægri frá því að viðskipti með bréf sameinaðs félags JBT og Marels hófust 3. janúar sl.
Þá lækkaði hlutabréfaverð Alvotech um 4% og hefur nú ekki verið lægra síðan í júní 2023.
Hlutabréf þriggja félaga á aðalmarkaðnum hækkuðu í viðskiptum dagsins; Icelandair, Eikar og Nova. Gengi Icelandair hækkaði mest eða um 1,6% í 346 milljóna króna veltu og stendur nú í 1,01 krónu á hlut.
Icelandair birti farþegatölur fyrir marsmánuð í morgun. Flugfélagið upplýsti um að bókunarstaða þess sé almennt sterkari fyrir sumarið en á sama tíma í fyrra en hægst hafi þó á bókunum til lengri tíma.