Sprotafyrirtækið LifeSwap tekur þátt í viðskiptahraðlinum Techstar í Seattle um þessar mundir. Um er að ræða fyrsta íslenska fyrirtækið til að taka þátt í hraðlinum sem þykir einn sá virtasti í heimi en einungis 1-2% fyrirtækja sem sækja um komast inn, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Meðal fyrirtæki sem hafa tekið þátt eru Uber, Twillio og SendGrid.
Með þátttökunni þá fær LifeSwap aðgang að tengslaneti Techstar, fer í gegnum ferli til þess að örva vöxt fyrirtækisins auk þess að fá fjármagn frá hraðlinum. Þá sótti LifeSwap fjármagn hjá íslenskum englafjárfestum, en umframeftirspurn var eftir hlutum í félaginu.
LifeSwap var stofnað sumarið 2021 og vinnur að því að umbylta ferðaþjónustugeiranum. Hugmyndin er að hjálpa ferðamönnum að ferðast eins og heimamenn með því að gera fólki kleift að starfa sem sjálfstæðir ferðaumboðsmenn á einfaldan og skalanlegan máta.
„Við höfum sjálfir kynnst því sem ferðamenn að það er allt of tímafrekt að skipuleggja frí á nýjan áfangastað,“ segir Bjarki Benediktsson stofnandi og framkvæmdastjóri LifeSwap.
„Það kom okkur á óvart hvað rosalega margir tengdu við þetta vandamál en nýjar rannsóknir sýna að 92% af fólki finnst yfirþyrmandi að fara í þessa vinnu í ljósi þess hversu margir valmöguleikar eru af afþreyingu, gististöðum og öðrum valkostum í boði í dag.“
„Það sem við komumst einnig að er að um 50% af ferðamönnum sem glíma við þetta vandamál eru tilbúnir að borga fyrir aðstoð, en ekki af hverjum sem er. Þau vilja kaupa þjónustu beint af heimamanni sem lifir lífstíl sem þau tengja við.“
Áhrifavaldar fyrstu notendur
Meðal fyrstu notenda á lausninni eru ferða-áhrifavaldar, bæði stórir sem og smáir, sem vilja veita framúrskarandi þjónustu fyrir sína fylgjendur og fanga meira af virðinu sem þau skapa fyrir ferðaþjónustu markaðinn.
Eftir að hafa heyrt í um það bil 100 aðilum, allt frá mögulegum viðskiptavinum, frumkvöðlum í ferðaþjónustu, ferðaskipuleggjendum, fjárfestum og fleirum töldu stofnendur LifeSwap að að mikill áhugi væri fyrir vörunni. Stjórnendur Techstars voru einnig mjög áhugasamir og spenntir fyrir verkefninu.
„Sem bæði meðstofnandi á íslensku félagi og fjárfestir í íslenskum tæknifyrirtækjum síðan 2006, þá er ég gríðarlega spenntur fyrir að bjóða LifeSwap í Techstars Seattle hraðalinn.“ segir Isaac Kato , framkvæmdastjóri Techstar Seattle. „Það eru risastór tækifæri í því að í tengja saman efnisköpunar/áhrifavalda hagkerfið (e. creator economy) og stafræna ferðaþjónustumarkaðinn. LifeSwap teymið eru réttu aðilarnir í það og er Ísland fullkominn pilot markaður fyrir hugmyndina áður en þeir skala hana til allra heimshorna.“