Líftæknifyrirtækið Ísteka, sem sérhæfir sig í að vinna lyfjaefni úr hryssublóði, hagnaðist um 324 milljónir króna árið 2022, samanborið við 526 milljónir króna árið 2021. Tekjur félagsins drógust saman um 9% á milli ára og námu 1.740 milljónum króna.
„Rekstrarkostnaðarliðir hækkuðu jafnframt því svo EBITDA félagsins lækkaði töluvert, eða um 39,5% og var 467,7 millj. kr. á árinu 2022,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi Ísteka.
„Hagnaður fyrir skatta minnkaði því einnig töluvert á milli áranna og má rekja þetta til óhagstæðra gengisbreytinga innan ársins, verðhækkana á aðföngum og samdráttar í sölu vöru.“

Stöðugildum hjá félaginu fækkaði úr 42 í 40 á milli ára. Laun og tengd gjöld námu 462 milljónum króna og jukust um 5,3% frá fyrra ári.
Um mitt síðasta ár var félaginu skipt þannig að fasteignir félagsins og skuldir þeim tengdar voru færðar yfir í nýtt félag, Áttaviti ehf. Fasteignir í eigu Áttavita voru bókfærðar á 855 milljónir króna í lok síðasta árs, miðað við afskrifað kostnaðarverð, en fasteignamat þeirra var tæplega 1,3 milljarðar.
Eignir Ísteka ehf. lækkuðu fyrir vikið úr tæpum 2,2 milljörðum í 1,6 milljarða króna á milli ára. Eigið fé líftæknifyrirtækisins var um 1,3 milljarðar í árslok 2022. Félagið hyggst ekki greiða út arð vegna ársins 2022.
Hörður Kristjánsson er stærsti hluthafi Ísteka með 74% hlut samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins. Hólmfríður H. Einarsdóttir er næst stærsti hluthafinn með 19% beinan hlut.
Neikvæð umfjöllun haft minni áhrif en búist var við
Í lok síðasta árs birtu dýraverndarsamtökin TSB Tierschutzbund Zurich og AWF Animal Welfare Foundation heimildarmynd um blóðtöku mera á Íslandi þar sem sjá mátti slæma meðferð á hrossum. Ísteka rifti í kjölfarið samningum við bændurna í myndbandinu. Mikil umræða skapaðist um blóðmerahald hér á landi eftir að heimildarmyndin fór í loftið.
„Félagið varð fyrir óvæginni og óréttmætri gagnrýni undir lok ársins 2021 sem vatt uppá sig um veturinn. Það hafði þó minni áhrif á framleiðslu ársins en búist var við en áfram má þó vænta þess að framleiðsla dragist nokkuð saman af þessum sökum,“ segir í skýrslu stjórnar sem var undirrituð 31. ágúst síðastliðinn.
„Til lengri tíma litið áætlum við þó að framleiðslan aukist aftur enda virðist töluverð eftirspurn vera til staðar.“