Fyrirtækið Istorrent, sem hélt utan um rekstur skráaskiptisíðunnar Torrent .is, var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjaness 10. maí síðastliðinn. Skiptastjóri hefur verið skipaður yfir þrotabúinu. Hæstiréttur staðfesti í febrúar árið 2010 niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur lögbann á skráaskiptisíðuna og að Istorrent og Svavar Kjarrval Lúthersson, forsvarsmaður þess, væru skaðabótaskyld gagnvart Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF). Svavari og Istorrent var jafnframt gert að greiða STEF 700 þúsund í málskostnað.

STEF hafði í nóvember árið 2007 fengið lögbann á síðuna.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptastjóri lýsir eftir kröfum í þrotabú Istorrent.