Ítalski bankinn UniCredit hefur tilkynnt þýska samkeppniseftirlitinu fyrirhuguð kaup á 29,99% hlut í þýska bankanum Commerzbank.
Samkvæmt talsmanni þýska samkeppniseftirlitsins var umsóknin lögð fram á mánudag og birtist hún nú á lista yfir núverandi samrunaumsóknir á vefsíðu eftirlitsins.
UniCredit tilkynnti í september um kaup á 9% hlut í Commerzbank, sem mætti harðri gagnrýni frá bæði þýskum stjórnvöldum og bankanum sjálfum, sem litu á viðskiptin sem fjandsamleg og einhliða
Þrátt fyrir það hefur UniCredit haldið sínu striki og bíður nú einnig samþykkis frá Seðlabanka Evrópu fyrir eignarhlut sínum, sem hefur verið keyptur að stórum hluta með afleiðuviðskiptum.
Forstjóri UniCredit, Andrea Orcel, hefur sagst ætla að bíða með frekari skref í yfirtökutilrauninni þar til ný ríkisstjórn tekur við í Berlín eftir þingkosningarnar sem fóru fram á sunnudag.
Þýska samkeppniseftirlitið hefur allt að einn mánuð til að meta hvort kaupin teljist vandamál í fyrstu yfirferð málsins.
Sú hlutdeild sem UniCredit hefur tilkynnt þýska eftirlitinu um er rétt undir 30% mörkunum sem myndu kalla á skylduboð um yfirtöku samkvæmt þýskum reglum.
Orcel hefur jafnframt sagt að ákvörðun um næstu skref varðandi eignarhlutinn í Commerzbank verði tekin innan þriggja til fimm fjórðunga.