Ítalski bankinn UniCredit hefur til­kynnt þýska sam­keppnis­eftir­litinu fyrir­huguð kaup á 29,99% hlut í þýska bankanum Commerz­bank.

Sam­kvæmt tals­manni þýska sam­keppnis­eftir­litsins var um­sóknin lögð fram á mánu­dag og birtist hún nú á lista yfir núverandi sam­ru­na­umsóknir á vefsíðu eftir­litsins.

UniCredit til­kynnti í septem­ber um kaup á 9% hlut í Commerz­bank, sem mætti harðri gagn­rýni frá bæði þýskum stjórn­völdum og bankanum sjálfum, sem litu á við­skiptin sem fjand­sam­leg og ein­hliða

Þrátt fyrir það hefur UniCredit haldið sínu striki og bíður nú einnig samþykkis frá Seðla­banka Evrópu fyrir eignar­hlut sínum, sem hefur verið keyptur að stórum hluta með af­leiðu­við­skiptum.

For­stjóri UniCredit, Andrea Orcel, hefur sagst ætla að bíða með frekari skref í yfir­töku­til­rauninni þar til ný ríkis­stjórn tekur við í Berlín eftir þing­kosningarnar sem fóru fram á sunnu­dag.

Þýska sam­keppnis­eftir­litið hefur allt að einn mánuð til að meta hvort kaupin teljist vanda­mál í fyrstu yfir­ferð málsins.

Sú hlut­deild sem UniCredit hefur til­kynnt þýska eftir­litinu um er rétt undir 30% mörkunum sem myndu kalla á skyldu­boð um yfir­töku sam­kvæmt þýskum reglum.

Orcel hefur jafn­framt sagt að ákvörðun um næstu skref varðandi eignar­hlutinn í Commerz­bank verði tekin innan þriggja til fimm fjórðunga.