Ítalski veitingastaðurinn Cibo Amore mun koma til með að opna annan veitingastað síðar í þessum mánuði. Að sögn eigenda verður staðurinn ekki langt frá miðbænum og verður svo vinnslueldhús einnig opnað ofan á það.
Cibo Amore opnaði síðasta sumar við Hamraborg og býður upp á hágæða ítalskar samlokur. Staðurinn selur samlokur til gangandi vegfaranda og býður einnig upp á veislubakkaþjónustu.
Hugmyndin að staðnum kviknaði þegar Davíð Már Sigurðsson, einn af eigendum Cibo Amore, var á ferðalagi á Ítalíu og heillaðist mikið af samlokumenningu þjóðarinnar. Hann fékk þá Þráin Júlíusson og Kristínu Gyðu Smáradóttur með sér í lið og hafa þau staðið vaktina síðan veitingastaðurinn opnaði.
Þau segja að viðbrögðin hafi verið langt umfram vonir og eiga þau enn eftir að hitta einhvern sem hafi eitthvað neikvætt að segja um matinn. „Við erum stundum að taka saman 130 samlokur fyrir klukkan 11 á morgnana fyrir fyrirtækin og síðan eigum við eftir að afgreiða búðina.“
Samlokur Cibo Amore verða þar að auki bráðum fáanlegar á átta öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í gegnum þriðja aðila sem óskaði eftir samstarfi við fyrirtækið.
„Við verðum svo líka með vinnslueldhús sem mun þjónusta staðina með álegg, sósur og alla veislubakka fyrir fyrirtækin. Þá munum við líka fá að leika okkur aðeins meira en fólk er rosalega opið fyrir því að smakka alls konar álegg,“ segir Þráinn en hann gerði nýlega spænska samloku með jamón-skinku, hvítlauk, sjö mismunandi tómötum og dönskum Prima Donna-osti.
Hann segir að þær samlokur hafi slegið í gegn og er mikil tilhlökkun að halda áfram að prufa nýjar uppskriftir. Davíð Már tekur í sama streng og segir að staðurinn muni ekki takmarka sig þrátt fyrir að vera 95% ítalskur og með ánægða ítalska viðskiptavini.
„Það eru einhverjar þrjár ítalskar fjölskyldur sem hafa verið að koma hingað, hver í sínu lagi og þær segja allar að þetta sé bara eins og að vera komin heim.“