Skagi, móðurfélag VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og Íslenskra verðbréfa, hefur sent frá sér jákvæða afkomuviðvörun. Félagið hefur fært niður áætlað samsett hlutfall í tryggingarstarfsemi fyrir árið 2025.

Félagið segir drög að uppgjöri fyrri árshelmings ársins benda til þess að samsett hlutfall í tryggingastarfsemi VÍS á tímabilinu sé 90,6% „sem er talsvert betra en áætlanir gerðu ráð fyrir“.

Í áður birtum rekstrahorfum fyrir árið 2025 í heild var áætlað að samsett hlutfall yrði á bilinu 93-96% með markmið um að vera undir 94%. Skagi hefur nú uppfært rekstrarhorfur í tryggingastarfsemi þannig að áætlað sé að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 92-95%.

Skagi segir að betra samsett hlutfall en áætlanir gerðu ráð fyrir skýrast m.a. af rekstrarbata sem rekja megi til áframhaldandi tekjuvexti í tryggingastarfsemi, hagfelldri tjónaþróun og hagræðingu í rekstri. Jafnframt hafi matsbreytingar verið jákvæðar vegna hagstæðrar þróunar fyrri tímabila og erlendrar starfsemi sem hafi verið aflögð.

Skagi segir áður birtar rekstrarhorfur um tekjur í fjármálastarfsemi vera óbreyttar. Samkvæmt drögum af uppgjöri sé ávöxtun fjárfestingaeigna 1,2% í öðrum ársfjórðungi og 0,1% á fyrri árshelmingi.

Félagið áréttar að vinna við árshlutauppgjör sé enn í gangi og því geti lykiltölur tekið smávægilegum breytingum fram að birtingu á fimmtudaginn næsta, 17. júlí.