Jarðboranir og skoska fyrirtækið Elemental Energies, sem sérhæfir sig í verkfræðiþjónustu fyrir borframkvæmdir, stofnuðu nýlega sameiginlegt fyrirtæki (e. joint venture). Markmiðið er að fyrirtækin geti saman tekið að sér fleiri verkþætti.
Sveinn Hannesson, forstjóri Jarðborana, segir að hugmyndin sé að hið sameinlega fyrirtæki get tekið við verkefnum alveg frá byrjunarstigum - greint hagkvæmnimat, stillt verkefninu upp, farið í gegnum fjármögnun fyrir verkefnið og borað – og skilað því af sér þegar allt er frágengið.
Þetta fyrirkomulag bjóði m.a. upp á aukna hagkvæmni og hraðari framgang í stórum verkefnum. Hann nefnir einnig að með þessu fyrirtæki fái Jarðboranir fleiri snertifleti við viðskiptavini.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Þar ræðir Sveinn m.a. um uppgang í rekstri Jarðborana, aukinn áhuga á jarðhita og rafvæðingu bora.