Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu Marel hefur Fjár­mála­eftir­litið veitt John Bean Technologies tveggja vikna fram­lengingu á fresti til þess að birta loka­á­kvörðun um hvort það hyggist gera yfir­töku­til­boð í Marel.

JBT hefur nú lagt fram tvær ó­skuld­bindandi vilja­yfir­lýsingar um mögu­legt til­boð í allt hluta­fé Marels en seinna til­boðið barst um miðjan desember.

„Á grund­velli lang­tíma­hags­muna Marel og allra hlut­hafa fé­lagsins, er enn unnið að því að meta framan­greinda ó­skuld­bindandi vilja­yfir­lýsingu af kost­gæfni, meðal annars með öflun ítar­legri upp­lýsinga er varða efnis­at­riði yfir­lýsingarinnar og, í sam­starfi við ráð­gjafa fé­lagsins, með tak­mörkuðum og ó­form­legum sam­skiptum við JBT. Sem fyrr liggur ekki fyrir nein vissa um hvort um­rædd yfir­lýsing muni leiða til form­legs skuld­bindandi yfir­töku­til­boðs, eða hverjir skil­málar þess kunni að verða,” segir í til­kynningu Marel.

Í lögum um yfir­tökur er kveðið á um að ef aðili til­kynnir opin­ber­lega að hann í­hugi að gera yfir­töku­til­boð, skuli hann birta loka­á­kvörðun um hvort hann hyggist leggja fram yfir­töku­til­boð innan sex vikna.

Frið­rik Jóhanns­son stjórnar­for­maður Eyris Invest, stærsta hlut­hafa Marels með 24,7% hlut, sagði í sam­tali við Við­skipta­blaðið í fyrra að hann býst fast­lega við því að stjórn Marels gangi til samninga­við­ræða við JBT í kjöl­far upp­færðrar ó­skuld­bindandi vilja­yfir­lýsingar fé­lagsins í desember.

Eyrir Invest hefur gert sam­komu­lag við JBT um að sam­þykkja boðið sem og ganga ekki til við­ræðna við aðra en JBT um sölu hluta­fjár Eyris í Marel.

Frið­rik sagði jafn­framt að Eyri hafi átt frum­kvæðið að sam­skiptum við JBT en hann telur banda­ríska fé­lagið vera besta kostinn í stöðunni fyrir Marel.

Stjórn Marels hafnaði fyrri vilja­yfir­lýsingunni ein­róma. Að mati stjórnarinnar tók til­boðið hvorki til­lit til innra virði rekstrar Marels né þeirrar á­hættu sem fælist í fram­kvæmd við­skiptanna.

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins hugnaðist ís­lenskum líf­eyris­sjóðum, sem eru stórir hlut­hafar í Marel, einnig illa að eiga hluta­bréf í er­lendu fyrir­tæki en fyrra boð hljóðaði upp á 25% greiðslu í reiðu­fé og 75% greiðslu í formi eigin bréfa.

Upp­færða til­boð JBT gerir hins vegar ráð fyrir sveigjan­leika í sam­setningu endur­gjalds eða að allt að 50% af endur­gjaldinu verði greitt með reiðu­fé og allt að 100% verði í formi hluta­bréfa í sam­einuðu fé­lagi JBT og Marel.