Samkvæmt Kauphallartilkynningu Marel hefur Fjármálaeftirlitið veitt John Bean Technologies tveggja vikna framlengingu á fresti til þess að birta lokaákvörðun um hvort það hyggist gera yfirtökutilboð í Marel.
JBT hefur nú lagt fram tvær óskuldbindandi viljayfirlýsingar um mögulegt tilboð í allt hlutafé Marels en seinna tilboðið barst um miðjan desember.
„Á grundvelli langtímahagsmuna Marel og allra hluthafa félagsins, er enn unnið að því að meta framangreinda óskuldbindandi viljayfirlýsingu af kostgæfni, meðal annars með öflun ítarlegri upplýsinga er varða efnisatriði yfirlýsingarinnar og, í samstarfi við ráðgjafa félagsins, með takmörkuðum og óformlegum samskiptum við JBT. Sem fyrr liggur ekki fyrir nein vissa um hvort umrædd yfirlýsing muni leiða til formlegs skuldbindandi yfirtökutilboðs, eða hverjir skilmálar þess kunni að verða,” segir í tilkynningu Marel.
Í lögum um yfirtökur er kveðið á um að ef aðili tilkynnir opinberlega að hann íhugi að gera yfirtökutilboð, skuli hann birta lokaákvörðun um hvort hann hyggist leggja fram yfirtökutilboð innan sex vikna.
Friðrik Jóhannsson stjórnarformaður Eyris Invest, stærsta hluthafa Marels með 24,7% hlut, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í fyrra að hann býst fastlega við því að stjórn Marels gangi til samningaviðræða við JBT í kjölfar uppfærðrar óskuldbindandi viljayfirlýsingar félagsins í desember.
Eyrir Invest hefur gert samkomulag við JBT um að samþykkja boðið sem og ganga ekki til viðræðna við aðra en JBT um sölu hlutafjár Eyris í Marel.
Friðrik sagði jafnframt að Eyri hafi átt frumkvæðið að samskiptum við JBT en hann telur bandaríska félagið vera besta kostinn í stöðunni fyrir Marel.
Stjórn Marels hafnaði fyrri viljayfirlýsingunni einróma. Að mati stjórnarinnar tók tilboðið hvorki tillit til innra virði rekstrar Marels né þeirrar áhættu sem fælist í framkvæmd viðskiptanna.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hugnaðist íslenskum lífeyrissjóðum, sem eru stórir hluthafar í Marel, einnig illa að eiga hlutabréf í erlendu fyrirtæki en fyrra boð hljóðaði upp á 25% greiðslu í reiðufé og 75% greiðslu í formi eigin bréfa.
Uppfærða tilboð JBT gerir hins vegar ráð fyrir sveigjanleika í samsetningu endurgjalds eða að allt að 50% af endurgjaldinu verði greitt með reiðufé og allt að 100% verði í formi hlutabréfa í sameinuðu félagi JBT og Marel.