Brian Deck, forstjóri John Bean Technologies, vill opna viðræður við stjórn Marels um mögulega yfirtöku á félaginu en hann segist sannfærður um að samruni fyrirtækjanna sé hagur beggja.
JBT sendi uppfærða óskuldbindandi viljayfirlýsingu um mögulegt yfirtökutilboð í allt hlutafé Marels í gærkvöldi þar sem tilboðsverðið er fært upp um um 7,9%, eða úr 3,15 evrum í 3,40 evrur, sem samsvarar 511 krónum á hlut miðað við skiptigengið 150,3.
Samkvæmt tilboðinu metur JBT Marel á 3,4 milljarða evrur eða ríflega 510 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins. Markaðsvirði Marels í gær samkvæmt Keldunni var 331 milljarður íslenskra króna.
Deck opinn fyrir viðræður við stjórn Marels
„JBT hefur lengi dáðst að Marel og það er mikill stefnumótandi, menningarlegur og rekstrarlegur samhljómur milli fyrirtækjanna tveggja. Við erum sannfærð um að fyrirhugaður samruni muni skila verulegum ávinning fyrir bæði fyrirtækin, viðskiptavini, starfsmenn, nærsamfélög, samstarfsaðila og hluthafa,“ segir Deck.
„Saman væru fyrirtækin tvö betur í stakk búin til að aðstoða viðskiptavini okkar við að búa til hágæða lokaafurð með sameinaða áherslu á sjálfbærar lausnir sem nýta betur dýrmætar matarafurðir sem og vatns- og orkuauðlindir. JBT er opið fyrir frekari viðræðum við stjórn Marels til að þróa niðurstöðu sem er beggja hagur,“ segir Deck enn fremur í tilkynningu til Kauphallarinnar í New York.
„Evrópskar höfuðstöðvar“ í Garðabæ
Samkvæmt yfirlýsingu JBT er félagið tilbúið að gera langtímaskuldbindingu til að halda „evrópskum höfuðstöðvum“ hins sameinaða félags í Garðabæ.
JBT segir jafnframt að fyrirtækið sé tilbúið að undirbúa kauptilboð sem hentar hluthöfum Marel og jafnvel bjóða þeir upp á „sveigjanleika í samsetningu endurgjalds eða að allt að 50% af endurgjaldinu verði greitt með reiðufé og allt að 100% verði í formi hlutabréfa í sameinuðu félagi JBT og Marel.“
Ef svo verður eignast hluthafar í Marel 29% hlut í hinu sameinaða félagi. Ef svo fer að 25% af kaupverðinu verði greitt með reiðufé og 75% í formi hlutabréfa eignast hluthafar Marels 38% í hinu sameinaða félagi.
Í tilkynningu frá Marel í gærkvöldi segir að félagið ætli að fara yfir og meta viljayfirlýsinguna „af kostgæfni með hliðsjón af langtímahagsmunum félagsins og allra hluthafa þess“. Ekki liggi fyrir nein vissa um hvort umrædd yfirlýsing muni leiða til formlegs skuldbindandi yfirtökutilboðs, eða skilmála þess.
Marel greindi jafnframt frá því að Eyrir Invest, stærsti hluthafi Marels með 24,7% hlut, styðji áfram við fyrri viljayfirlýsingu JBT sem og hið uppfærða tilboð ef svo bæri undir.
Marel upplýsti markaðinn þann 24. nóvember síðastliðinn um fyrri óskuldbindandi viljayfirlýsingu JBT.
Stjórn Marels samþykkti einróma örfáum dögum síðar að hafna áformuðu tilboði JBT og sagði að það væri ekki í þágu hluthafa að taka því.
„Yfirlýst stefna Marel er skýr hvað varðar ytri vöxt og tækifæri til frekari samþjöppunar (e. consolidation) innan geirans eins og framkvæmd stefnu félagsins ber vitni um. Í samræmi við hlutverk sitt og ábyrgð er stjórn Marel tilbúin að leggja mat á vel ígrundaðar tillögur sem endurspegla að fullu virði Marel,“ sagði stjórn Marels í lok síðasta mánaðar.