Jóhann Ólafur Jónsson stjórnarformaður hugbúnaðarfyrirtækisins Annata fékk yfir 1,3 milljarða króna í fjármagnstekjur í fyrra.

Jóhann átti ásamt eiginkonu sinni 30% hlut í Annata en framtakssjóðurinn VEX og meðfjárfestar greiddu 7,4 milljarða króna fyrir helmingshlut í félaginu í febrúar í fyrra. Jóhann var þá forstjóri en steig til hliðar í því hlutverki og tók við stjórnarformennsku í lok október síðastliðnum þegar Magnús Norðdahl var ráðinn forstjóri.

Greint var frá því við það tilefni að stefnt yrði að skráningu félagsins á markað á næstu árum.

Annata þróar og selur viðskiptalausnir byggðar á skýjalausn Microsoft, Azure, og tengdum kerfum, fyrir bifreiða- og tækjaiðnaðinn, og hefur skipað sér í innsta hring meðal samstarfsaðila tæknirisans.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun síðasta árs þegar tilkynnt var um söluna til fjárfestahópsins sagði Jóhann tveggja áratuga uppbyggingarstarf hafa skilað félaginu afar sterkri stöðu á sínum markaði.

Tekjur félagsins námu um fimm milljörðum króna árið 2021 og uxu um 45% milli ára, og EBITDA var um þriðjungur þess.

Listi yfir þá 150 einstaklinga sem voru með hæstu fjármagnstekjurnar í fyrra birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta nálgast listann hér.