Ólafur Arnalds tónlistamaður og Jökull Júlíusson, söngvari hljómsveitarinnar Kaleo, rata á lista yfir tekjuhæstu Íslendingana árið 2024. Ólafur Arnalds var með 285 milljónir króna í fjármagnstekjur en Jökull var með 178 milljónir.

Þeir hafa báðir haft nóg fyrir stafni að undanförnu. Ólafur Arnalds hefur um árabil gert gott mót í Hollywood og víðar sem tónskáld og hefur hann til að mynda þrívegis hlotið tilnefningu til Grammy verðlauna, nú síðast í fyrra. Fyrr í ár gaf hann út smáskífu með Eurovision-stjörnunni Loreen en þá höfðu þau unnið að samstarfi í tvö ár.

Jökull var þá í fyrra á tónleikaferðalagi með Kaleo sí Norður-Ameríku og síðar í Evrópu. Í mars 2024 fagnaði hljómsveitin tíu ára afmæli sínu með tónleikum í Colosseum í Róm og gaf út sitt fyrsta lag í þrjú ár. Í sumar gáfu þeir út nýja plötu og á dögunum fór tónleikahátíð Kaleo síðan fram í Vaglaskógi en það voru fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar á Íslandi í áratug.

Listi yfir 150 tekjuhæstu Íslendinganna birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann í heild hér.

Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.