Jónína Gunnarsdóttir hefur látið af störfum sem forstjóri fjártæknifyrirtækisins Teya, sem hét áður SaltPay og þar áður Borgun. Jónína hefur þó ekki sagt skilið við Teya en hún tók á dögunum sæti í stjórn fyrirtækisins. Hún greinir frá þessu í færslu á Linkedin.
„Eftir rúmlega 9 ára starf hjá Teya (Borgun/SaltPay) stend ég á tímamótum. Ég tel mig hafa náð þeim markmiðum sem ég setti mér og finnst vera komin tími á breytingar,“ skrifar Jónína.
„Ég hef verið vakin og sofin yfir rekstri og verkefnum félagsins um langt skeið og mörg krefjandi en skemmtileg verkefni verið leyst af hendi. Reynslan af bæði sigrum og ekki síður mistökum er eitthvað sem ég mun alltaf búa að og er þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa.“
Jónína tók við sem forstjóri Teya í mars 2022 af Reyni Grétarssyni sem færði sig þá yfir í starf stjórnarformanns fjártæknifyrirtækisins.
Jónína, sem hefur starfað hjá Teya og forverum þess allt frá árinu 2014, segist hafa ákveðið síðasta vor að láta af störfum sem forstjóri félagsins og lét hún formlega af störfum 1.september síðastliðinn.