Eftir að hafa verið rekið með 38 milljóna króna tapi árið 2023 sneri Dropp, sendingarþjónusta fyrir netverslanir, við blaðinu og hagnaðist um 21 milljón á síðasta ári. Rekstrartekjur jukust verulega á milli ára og námu 936 milljónum í fyrra, samanborið við 535 milljónir árið áður.

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins segir að viðsnúningur í rekstrarafkomu hafi orðið vegna fjölgunar sendinga. Þá festi Dropp kaup á 75% hlut í Górilla, félagi sem hýsir vörur fyrir netverslanir og heildsölur. Þannig falli fyrirtækið vel að rekstri Dropp. Gengið var frá kaupum á eftirstandandi 25% hlut í Górilla í byrjun yfirstandandi árs. Bókfært verð 75% hlutar Dropp í Górilla nam 307 milljónum króna samkvæmt ársreikningi.

Hlutafé Dropp var aukið um 615 milljónir króna í nóvember sl. og var það gert til að standa undir fjárfestingum í frekari vexti, eins og kemur fram í skýrslu stjórnar. Á haustmánuðum 2024 hafi félagið skrifað undir leigusamning um stærra og sérhæft húsnæði á Korputorgi og flutt starfsemi sína í ný húsakynni í mars sl. Starfsemi Dropp og Górilla sé þar með komin undir sama þak og Dropp um leið tryggt sér framtíðarhúsnæði.

Nánar ef fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.