Kælismiðjan Frost, sem rekur viðhalds- og þjónustustöð fyrir kælibúnað, hagnaðist um 167 milljónir á síðasta ári samanborið við 230 milljónir árið áður. Fyrirtækið hyggst greiða út 115 milljónir í arð vegna síðasta rekstrarárs.

Velta Kælismiðjunnar Frosts dróst saman um 7% á milli ára og nam 2.842 milljónum. Stjórn félagsins segir í ársreikningi að erlend verkefni myndi stóran hluta af heildarveltunni en á fyrri hluta síðasta árs frestuðust stór verkefni vegna Covid-19 faraldursins. Félagið hafi þó náð að auka veltuna aftur á síðari hluta ársins.

„Helsta óvissan sem snýr að félaginu fyrir árið 2022 er hvernig muni ganga að sinna stórum erlendum verkefnum og að sækja ný erlend verkefni. Má í því samhengi nefna utanaðkomandi þætti eins og viðskiptaþvinganir og áframhaldandi heimsfaraldur. Einnig getur vöruskortur í heiminum og lengri afhendingartími haft áhrif á framgang verkefna félagsins.“

Félagið stofnaði dótturfélag í Kolding í Danmörku sem er ætlað að auðvelda sölu og þjónustu félagsins í Evrópu. Umsvif dótturfélagsins voru óveruleg á árinu 2021.

Þá hefur Kælismiðjan Frost, sem er með starfstöðvar á Akureyri og í Garðabæ, unnið að því að bæta við sig tæknimönnum til þess að auka sérfræðiþekkingu innan fyrirtækisins á undanförnum árum. Fjöldi starfsmanna í lok síðasta árs var 58 samanborið við 56 í árslok 2020.

Eignir Kælismiðjunnar Frosts voru bókfærðar á 1.480 milljónir í lok síðasta árs og eigið fé var 851 milljón. Stærstu hluthafar Kælismiðjunnar Frosts eru Kaldbakur, dótturfélag Samherja, og Samvinnufélagið Kea sem fara hvor um sig með 20,8% hlut í félaginu.