Vesturbær kaffihús ehf., rekstrarfélag Kaffihúss Vesturbæjar, tapaði 180 þúsund krónum í fyrra eftir 4,8 milljón króna hagnað árið 2021.
Rekstartekjur árið 2022 voru 216 milljónir króna og afkoma fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld var 2,4 milljónir króna. Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins 38 milljónum króna. Bókfært eigið fé í árslok nam 7,8 milljónum króna.
Skuldir félagsins námu 30,1 milljón króna en þar af eru langtímalán 18,9 milljónir og skammtímaskuldir um 11,2 milljónir.
Handbært fé helmingaðist
Veltufé frá rekstri nam 3,8 milljónum króna en handbært fé frá rekstri var neikvætt um 6 milljónir króna. Handbært fé í ársbyrjun var 12,1 milljónir og því var handbært fé í árslok rúmar 6 milljónir króna.
Stærsti eigandi kaffihússins er félagið Ferdinand ehf. sem er í eigu vinanna Gísla Marteins Baldurssonar, Péturs Marteinssonar fyrrum knattspyrnumanns og Einars Arnar Ólafssonar fjárfestis og stjórnarformanns PLAY, í gegnum félag sitt Eini ehf.
Opnaði árið 2014
Pétur Marteinsson, einn eigenda kaffihússins, var í viðtali við Eftir vinnu, fylgirit Viðskiptablaðsins í lok september 2014, nokkrum dögum fyrir opnunina sem fór fram 6. október 2014.
„Ástæðan fyrir því að við réðumst í þetta er að við búum allir í hverfinu og þetta er eitthvað sem okkur fannst vanta. Grundvallarpælingin var að setja upp kaffihús og bistro þar sem fólk í hverfinu getur komið, hvort sem það er í morgunmat, hádegismat eða á kvöldin og fengið sér kaffi og kruðerí þess á milli.“