Hlutabréf fasteignafélagsins Kaldalóns verða tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar á fimmtudaginn, 16. nóvember. Kauphöllin, Nasdaq Iceland, hefur samþykkt beiðni félagsins þess efnis, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Kaldalón birti fyrir helgi skráningarlýsingu vegna fyrirhuguðu flutninganna af First North yfir á aðalmarkaðinn.
Kaldalón hefur verið var skráð á íslenska First North-markaðinn frá því í ágúst 2019. Kaldalón var á þeim tíma skilgreint sem fasteignaþróunarfélag en á síðustu árum hefur verið unnið að því að breyta félaginu í hefðbundnara fasteignafélag með kaupum á tekjuberandi atvinnueignum.
Stjórn félagsins ákvað árið 2022 að hefja undirbúning að skráningu félagsins á aðalmarkað Kauphallarinnar þegar þremur af eftirfarandi fjórum viðmiðum yrði náð:
- Fjárfestingareignir nemi 50 milljörðum króna
- Leigutekjur félagsins, áætlaðar til næstu 12 mánaða, eru hærri en 3,5 milljarðar króna
- Árshlutareikningur með hreinan rekstur fasteignasafns hefur verið gefinn út og endurskoðaður
- Félagið hafi gefið út grunnlýsingu vegna markaðsfjármögnunar
Í hálfsársuppgjöri Kaldalóns sagðist félagið vilja með skráningu á aðalmarkað ná til breiðari hóps fjárfesta. Jafnframt hyggi félagið á útgáfu og skráningu skuldabréfaflokka undir nýjum 30 milljarða útgáfuramma félagsins.