Fasteignafélagið Kaldalón, sem er skráð á First North-markaðinn, hefur boðað til hluthafafundar á fimmtudaginn næsta, 2. nóvember. Þar mun stjórn félagsins m.a. leggja fram tillögu um öfuga skiptingu hluta (e. reverse stock split), að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Verði tillagan samþykkt munu hverjir tíu hlutir í félaginu (þar sem hver hlutur er 1. króna að nafnverði) skipt í einn hlut. Þannig verði nafnverð hvers hlutar 10 krónur. Öfugu skiptingunni skal lokið fyrir 1. janúar 2024.
Í greinargerð með tillögunni segir að markmiðið með öfugu skiptingunni sé m.a. að gera viðskiptavakt með útgefin hlutabréf í félaginu skilvirkari og öflugri.
Kaldalón stefnir að því að færa sig af First North-markaðnum yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar fyrir lok ársins. Stjórn fasteignafélagsins tilkynnti fyrir tveimur vikum að ekki yrði gefið út nýtt hlutafé samhliða skráningu félagsins á aðalmarkaðinn. Stjórn Kaldalóns hyggst ljúka öfugu skiptingunni fyrir skráninguna á aðalmarkaðinn.
Kaldalón hyggst veita nánari upplýsingar um framkvæmd öfugu skiptingarinnar þegar stjórn hefur ákveðið nánar tilteknar dagsetningar í ferlinu. Nánari upplýsingar um öfugu skiptinguna má finna í greinargerð með tillögu stjórnar félagsins.